is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17801

Titill: 
  • Hjúpgerðadreifing pneumókokka í sýkingum í miðeyra og neðri öndunarvegi í kjölfar innleiðingar bólusetninga. Þróun greiningaraðferðar
Námsstig: 
  • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
  • Streptococcus pneumoniae, eða pneumókokkar, er mikilvægur sýkingavaldur í mönnum sem árlega dregur um eina milljón barna til dauða. Bakterían leggst helst á börn, eldra fólk og ónæmisskerta einstaklinga og veldur aðallega miðeyrnabólgu og lungnabólgu en hún er einnig algengasta orsök heilahimnubólgu eftir að farið var að bólusetja gegn Haemophilus influenzae af týpu B. Aðalmeinvirkniþáttur pneumókokka er fjölsykruhjúpurinn og eru þekktar nærri 100 mismunandi hjúpgerðir. Dreifing hjúpgerða er misjöfn, meðal annars eftir löndum og á milli aldurshópa. Fyrsta próteintengda pneumókokkabóluefnið fyrir börn yngri en tveggja ára kom á markað árið 2001 og veitti það vörn gegn sjö hjúpgerðum. Mörg ríki hófu bólusetningar með 7-gilda bóluefninu og hefur tíðni bóluefnishjúpgerðanna lækkað umtalsvert í kjölfarið í þeim löndum. Árið 2011 voru pneumókokkabólusetningar með 10-gildu bóluefni teknar upp í ungabarnabólusetningum á Íslandi og því tími til kominn að skoða áhrif þeirra á hjúpgerðadreifingu hér á landi. Fjölföld PCR aðferð hefur verið notuð til að greina og skoða hjúpgerðadreifingu hér á landi, en bólusetningum fylgja auknar líkur á tilkomu sjaldgæfari hjúpgerða og því er mikilvægt að greiningarpanellinn sé aðlagaður eftir því sem þörf krefur.
    Markmið rannsóknarinnar voru að stækka PCR hjúpgerðargreiningarpanelinn svo hann næði til fleiri hjúpgerða en áður og skoða hjúpgerðadreifingu pneumókokka í sýnum frá miðeyra og neðri öndunarvegi fyrstu tvö árin eftir innleiðingu bólusetninga.
    Alls ræktuðust 521 pneumókokkastofnar úr sýnum frá miðeyra og neðri öndunarvegi sem bárust á Sýklafræðideild árin 2011 og 2012. Af þeim var búið að greina hjúpgerð 154 stofna og hjúpgerðahóp 51 stofns. Tiltækir ógreindir stofnar voru 311. Sértæk prímerapör fyrir samtals 28 hjúpgerðir í sjö PCR hvörfum voru notuð til hjúpgerðargreiningar á þeim en 12 hjúpgerðum í þremur viðbótarhvörfum var bætt við greiningarpanelinn í rannsókninni.
    Í heild fékkst greining á 78,8% stofna með stækkuðum PCR greiningarpanel, þar af 38,9% í hvarfi I, 18,3% í hvarfi II og 12,5% í hvarfi III. Algengustu hjúpgerðirnar í miðeyra og neðri öndunarvegi árin 2011 og 2012 voru 19F (37,0%), 23F (7,8%), 6A (6,4%), 3 (5,5%), 6B (5,1%) og 15B/C (4,7%).
    Talsverðar breytingar sáust á hjúpgerðadreifingu á milli áranna 2011 og 2012. Greinilega dró úr hjúpgerðum 10-gilda bóluefnisins, sérstaklega algengustu hjúpgerðanna, 19F og 23F. Á móti fjölgaði öðrum hjúpgerðum og af þeim var hjúpgerð 15B/C mest áberandi. Mesta breytingin varð á hjúpgerðadreifingu í miðeyrnasýnum og á meðal 0-1 árs barna.
    Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að með stækkuðum greiningarpanel má hjúpgerðargreina allt að 85% pneumókokkastofna eins og dreifingin er núna. Jafnframt benda niðurstöðurnar til þess að bólusetningar með 10-gildu bóluefni virki sem skyldi.

Samþykkt: 
  • 6.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17801


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Silja Rut Sigurfinnsdóttir_Diplómaritgerð_Lokaútgáfa.pdf950.3 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna