Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17842
Í rannsókninni er fjallað um íslenska frumpönkið sem menningarkima.Rannsóknin beinist að tímabili sem nær frá árinu 1976, þegar er fyrst er farið að fjalla um pönk í íslenskum fjölmiðlum, fram á vorið 1982. Munnlegra heimilda í formi viðtala var sérstaklega aflað til þess að ná að lýsa reynslu og viðhorfum þeirra sem þátt tóku í menningarkimanum á sem sanngjarnastan hátt.
Fjallað er um þá ímyndasköpun sem fram fór í fjölmiðlum áður en eiginleg pönkmenning myndaðist hér á landi og þær fyrirfram mótuðu hugmyndir sem fyrstu pönkararnir mættu. Pönkið var alllengi eitthvað Íslendingar þekktu flestir aðeins af afspurn. Þetta gerði fjölmiðlum kleyft að fjalla um fyrirbærið eftir eigin geðþótta. Eftir því sem á leið og menningarkiminn hóf að kvikna hérlendis vék einhliða fréttaflutningur hinsvegar fyrir raunsærri umfjöllun. Því er lýst hvernig einstaklingar fengu áhuga á pönktónlist og hvernig þeir fóru að því að verða sér úti um pönktónlist og önnur aðföng.Myndun tónlistarvettvangs er lýst en erfiðleikar hvað varðar aðföng og aðstöðuleysi hvað tónlistarflutning varðar virðist hafa verið það sem stóð menningarkimanum lengi vel fyrir þrifum. Auk þeirra praktísku erfiðleika sem fylgdu því að komast á svið kvörtuðu þau sem reyndu að flytja pönk og aðra framsækna tónlist til að byrja með oft undan því að áheyrendur kynnu ekki að meta tónlist sem þeir þekktu ekki og kunni ekki að dansa við. Diskómenningunni var gjarnan kennt um ástandið. Vorið 1980 urðu hinsvegar þáttaskil og pönkið, sem hafði þá kraumað um nokkurt skeið í Kópavoginum, braust upp á yfirborðið. Fjallað er um fyrstu pönkhræringarnar, áhrif tónleika The Stranglers vorið 1978 og pönkmenningu í Kópavogi. Tilurð pönks sem tónlistarlegs vettvangs er skoðuð og helstu hljómsveitum, viðburðum og stöðum lýst.
Pönkinu er lýst og það greint sem samfélagslegur vettvangur ásamt útliti og viðhorfum pönkara. Áhrif smæðar samfélags og markaðs á pönkið sem tónlistarlegan og félagslegan vettvang eru greind.
Að lokum er skoðuð sú hugmyndafræði sem snýst um höfnun neyslumenningar og almenna andúð á ríkjandi skipan mála og stöðnuðum samfélagshugmyndum (status quo). Pönkið hafnaði stóru útgáfufyrirtækjunum og þeim glamúr sem velgengni á mála hjá slíkum fyrirtækjum var tengdur. Grasrótarvinnubrögð og það að gera hlutina sjálfur og á eigin forsendum var sú sýn sem pönkið boðaði. Þetta viðhorf skapaði grundvöll fyrir því að nálgast íslenskan menningararf og hefðir á nýjan máta.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MAponk-heildartexti.pdf | 998.92 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |