is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17943

Titill: 
  • Vindorka - nýr valkostur við raforkuvinnslu á Íslandi. Samanburður við vatns- og jarðvarmaorku
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Íslendingar hafa notið þess að eiga gnægð endurnýjanlegra orkugjafa og hafa borið til þess gæfu að nýta þá í eigin þágu og til uppbyggingar í iðnaði. Raforka hefur á síðustu árum verið framleidd svo til að öllu leyti með vatns- og jarðvarmaorku og húshitun er nánast öll með hitaveitu og raforku frá þessum sömu endurnýjanlegu orkugjöfum. Þetta er einsdæmi í heiminum, þar sem víða er nú leitað allra leiða til að auka hlut endurnýjanlegra orkugjafa í raforkuvinnslu til að stemma stigu við vaxandi útblæstri gróðurhúsalofttegunda.
    Vindorka hefur á síðustu árum rutt sér til rúms sem sá endurnýjanlegi orkugjafi sem, ásamt sólarorku, hefur vaxið hraðast í heiminum. Gríðarleg aukning í uppsettu afli og raforkuvinnslu með þessum orkugjöfum hefur leitt til þess að hlutur þeirra í raforkuvinnslu á heimsvísu hefur vaxið hröðum skrefum á liðnum árum. Hið sama verður ekki sagt um hina hefðbundnari endurnýjanlegu orkugjafa sem Íslendingar eiga að venjast, vatns- og jarðvarmaorku. Sérstaka athygli vekur að hlutur jarðvarmaorku til raforkuvinnslu er lítill og hefur staðið í stað á heimsvísu á liðnum árum (U.S. Energy Information Adminsistration [eia], 2013; International Renewable Energy Agency [IRENA], 2012).
    Í janúar 2013 tók Landsvirkjun í notkun 2 vindmyllur í tilraunaskyni. Rekstur þeirra lofar afar góðu og gefur fyrirheit um að vindorka sé vænlegur kostur til raforkuvinnslu, líkt og verið hefur raunin víðast hvar erlendis. Í samanburði við vatnsafls- og jarðvarmavirkjanir hefur vindorkan ýmsa áhugaverða kosti sem gera það að verkum að virkjun vinds gæti breytt áherslum í virkjanauppbyggingu hér á landi. Að sumu leyti er vindorkan ekki sambærileg og þar af leiðandi ekki samanburðarhæf við þá grunnorku sem fæst með virkjun jarðvarma og stýranlega orku vatnsaflsins. Vindorkan hefur þó ýmsa kosti umfram vatnsorku og jarðvarma sem gera það að verkum að hún er mjög áhugaverð og sérstaklega þegar hún er virkjuð samhliða virkjun vatnsafls.
    Megin niðurstaða þessarar ritgerðar er að kostnaðarverð vindorku getur verið samkeppnishæft við jarðavarmavirkjanir en heldur hærra en í vatnsorku. Sé tekið tillit til allra óvissu- og áhættuþátta og ekki síst umhverfismála er vindorkan þó nú þegar einn áhugaverðasti kostur sem Íslendingar eiga til raforkuvinnslu. Með sífellt betri tækni, bættri nýtingu, lægri kostnaði og betri endingu er ljóst að Íslendingar eiga gríðarleg tækifæri í beislun vinds. Vindorka er því augljóslega nýr og spennandi valkostur Landsvirkjunar til raforkuvinnslu líkt og verið hefur erlendis undanfarin ár. Virkjun vatnsafls er og verður áfram þungamiðjan í raforkuvinnslunni og fer einstaklega vel saman við virkjun vindorku.
    Jarðvarminn er einnig áhugaverður kostur, sérstaklega þegar um er að ræða fjölþætta notkun hans. Til raforkuvinnslu eingöngu í stórum stíl þarf að hafa í huga og verðleggja með réttum hætti mikla óvissu um kostnað, orkugetu og endingu jarðhitasvæða. Þá hafa umhverfismálin samfara virkjun jarðvarma verið vaxandi áhyggjuefni. Þetta hefur gert það að verkum að virkjun jarðvarma verður að teljast mun áhættumeiri en virkjun vatnsfalla og vinds og hefur ekki þótt eins áhugaverður kostur á heimsvísu og annars mætti ætla. Ekki verður séð að íslenskar aðstæður séu mikið frábrugðnar því sem gerist erlendis ef undan er skilin samnýting jarðvarmans til húshitunar og annarra nota auk raforkuvinnslu.

Samþykkt: 
  • 8.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/17943


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
140507 Lokaritgerd KG Final.pdf1,68 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna