Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/17958
Jákvæð ímynd er talin vera einn mikilvægasti þáttur í markaðssetningu áfangastaðar. Ímynd er einstaklingsbundið hugtak sem getur breyst í samræmi við aukna upplýsingaleit ferðamanna og af þeirra persónulegu reynslu. Þegar kemur að ferðaþjónustu er rafrænt umtal sífellt að verða mikilvægari þáttur í ákvörðunarferli og eru ferðamenn farnir að afla sér gífurlega mikla upplýsinga á vefsíðum sem bjóða upp á ummæli og umsagnir af fyrri reynslu annarra einstaklinga.
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna hver grunnímynd og endurmótuð ímynd Íslands sem áfangastaðar væri í huga erlendra ferðamanna, hvort rafrænt umtal hafi verið mikilvægur þáttur í skynjun þeirra á Íslandi sem áfangastað, sem og á ákvörðunarferli þeirra við að fara í þessa ferð til Íslands. Enn fremur var leitast eftir að kanna hvort ferðamenn töldu líklegt að þeir myndu deila sinni persónulegu reynslu með öðrum eftir dvöl sína hér á landi og á hvaða hátt þeir myndu þá helst velja að deila upplifun sinni.
Framkvæmd var meigindleg spurningakönnun meðal erlendra ferðamanna og leiddu niðurstöður rannsóknar í ljós að grunnímynd Íslands er mjög sterk og hafa ferðamenn mjög miklar væntingar til landsins. Endurmótaða ímynd Íslands er einnig sterk, en í áhrifamestu ímyndarþáttum er hún þó örlítið veikari heldur en grunnímyndin. Náttúran og einstakleiki landsins reynast þó vera ofarlega í huga ferðamanna, bæði fyrir sem og eftir dvöl og flestir upplifa vingjarnlegt, afslappað og friðsælt andrúmsloft á meðan dvöl þeirra stóð hér á landi. Rafrænt umtal virðist vera nokkuð mikilvægur þáttur þegar kemur að skynjun ferðamanna á Íslandi sem áfangastað og er einnig mikið notað í ákvörðunarferli, þá sér í lagi almennt rafrænt umtal. Ferðamenn á Íslandi telja þó ekki mjög líklegt að þau ummæli sem þeir deila með öðrum eftir upplifun verði rafræn, heldur er mun líklegra að þeir deili reynslu sinni með fjölskyldu, vinum og ættingjum. Samfélagsssíður og ferðaendurgjafasíður eru þó þær upplýsingaveitur sem ferðamönnum þykir líklegast að þeir deili ummælum sínum á, ef einungis er horft á rafrænt umtal.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Áfangastaðurinn Ísland. Grunnímynd og endurmótuð ímynd Íslands og mikilvægi rafræns umtals.pdf | 2.87 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |