is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár) Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/17977

Titill: 
 • Árangur þvagblöðrubrottnáms vegna krabbmeins í þvagblöðru á Íslandi árin 2003-2013
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Þvagblöðrubrottnám er kjörmeðferð við vöðvaífarandi krabbameini í þvagblöðru. Aðgerðin er umfangsmikil og fylgikvillar því algengir. Markmið rannsóknarinnar var að kanna afdrif sjúklinga sem fóru í aðgerðina, fylgikvilla og koma á fót framvirkri skráningu hjá einstaklingum sem fara í slíka aðgerð á LSH.
  Efni og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sjúklinga sem gengust undir þvagblöðrubrottnám vegna krabbameins í þvagblöðru á LSH og FSA á árunum 2003-2013. Upplýsingar fengust úr sjúkraskrám sjúklinga og Dánarmeinaskrá Landlæknisembættis. Fylgikvillar voru flokkaðir samkvæmt Clavien-Dindo flokkunarkerfinu. Endurkoma krabbameins og lifun var einungis skoðuð hjá þeim sjúklingum sem voru með breytiþekjukrabbamein.
  Niðurstöður: Alls gengust 108 sjúklingar (meðalaldur 67 ár, 81,5% karlar) undir þvagblöðrubrottnám vegna krabbameins í þvagblöðru á rannsóknartímabilinu. Staðbundið breytiþekjukrabbamein (e. transitional cell cancer) höfðu 99 sjúklingar. Bricker þvagveita var gerð í 86% tilfella og nýblaðra á þvagrás í 14%. Miðgildi aðgerðartíma var 266 mínútur og miðgildi blóðtaps í aðgerð var 1000 ml. Miðgildi legutíma eftir aðgerð var 15 dagar. Enginn sjúklingur lést innan 30 daga frá aðgerð en 1 sjúklingur (0,9%) lést innan 90 daga úr fylgikvilla aðgerðar. Stigun eftir aðgerð sýndi að 50 sjúklingar (46%) voru með meinafræðistig T3a eða hærra. Alls fengu 62 sjúklingar (57%) fylgikvilla í kjölfar aðgerðar. Algengustu fylgikvillar voru garnastífla (23%), þvagfærasýking (14%) og þrenging á tengslum þvagveitu og þvagleiðara (9%). Minniháttar fylgikvilla (Clavien: 1-2) fengu 30 sjúklingar (28%), 17 (16%) alvarlega fylgikvilla (Clavien: 3-5) og 15 (14%) hvoru tveggja. Enduraðgerð var framkvæmd á 26 sjúklingum (24%). Miðgildi eftirfylgdartíma var 35,9 mánuðir (millifjórðungsbil: 19,8-75,0 mán.). Endurkoma krabbameins greindist hjá 39 sjúklingum (39%) á eftirfylgdartímanum. Heildarlifun eftir 5 ár var 54% og sjúkdómstengd lifun 59%. Sterkasti forspárþáttur lifunar var TNM stig eftir aðgerð (p < 0,0001).
  Ályktanir: Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að lifun eftir aðgerð er sambærileg því sem lýst hefur verið í erlendum rannsóknum. Sama má segja um háa tíðni fylgikvilla og enduraðgerða. Því má álykta að árangur þvagblöðrubrottnáms hér á landi sé góður borið saman við árangur aðgerðarinnar í löndunum í kringum okkur.

Samþykkt: 
 • 9.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/17977


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
B.S ritgerð-loka-loka.pdf893.56 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna