is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18013

Titill: 
 • Tíðni og meðferð ógleði og uppkasta eftir svæfingu og skurðaðgerðir á Landspítala
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Ógleði og uppköst eru algengur fylgikvilli skurðaðgerða með tíðni um 20-40% sem geta valdið sjúklingum miklum óþægindum og í einstaka tilfellum haft alvarlegar afleiðingar. Markmið rannsóknarinnar var að mæla tíðni ógleði og uppkasta eftir aðgerðir á Landspítala.
  Efniviður og aðferðir: Framsýn ferilrannsókn á sjúklingum 18 ára sem gengust undir skurðaðgerð á dagvinnutíma og lögðust á vöknunardeildir Landspítalans í Fossvogi og við Hringbraut á sex vikna tímabili í febrúar og mars 2014. Upplýsingum var safnað á aðgerðardegi úr sjúkraskrárgögnum og daginn eftir aðgerð með viðtali við þá sem lögðust inn á legudeild. Samband áhættuþátta var reiknað með lógistískri aðhvarfsgreiningu.
  Niðurstöður: Alls voru 725 sjúklingar hafðir með í rannsókninni, þar af 393 (54%) karlar. Meðalaldur var 57,5±17ár, meðalþyngd 84,5±19 kg, BMI 28,1±5. 75% voru í ASA flokki 1-2. Valaðgerðir voru 658 (91%) en bráðaaðgerðir 67 (9%). Eftir aðgerð fóru 340 (47%) heim samdægurs en 385 (53%) lögðust inn. Algengastar voru bæklunar- 198 (27%), kviðarhols- 133 (18%), þvagfæra- 95 (13%), og HNE 92 (13%) aðgerðir. Ógleðiforvörn var gefin í samtals 296 (40%) tilfellum (af þeim fengu barkstera 92%, haloperidol/droperidol 66%, ondansetron 56% og metoclopramide 3%). Marktækur munur var á tíðni fyrirbyggjandi ógleðimeðferðar eftir tegund aðgerðar (p < 0,001) og eftir fjölda áhættuþátta sjúklings (p < 0,001) en ekki milli dag- og legudeildarsjúklinga (p = 0,36). Sjúklingar með fleiri áhættuþætti fengu meiri ógleðiforvörn, þó fengu um 30% sjúklinga í hæsta áhættuflokki enga ógleðiforvörn. Ógleði var skráð hjá 2% sjúklinga á vöknun og uppköst hjá 1% en björgunarmeðferð við ógleði var skráð hjá 63 (9%) (metoclopramide 65%, ondansetron 63%, andhistamín 8%, barksterar 3% og haloperidol 2%). Á legudeild fundu 31% sjúklinga fyrir ógleði, þar af 11% fyrir mikilli ógleði, 16% köstuðu upp og 16% fengu björgunarmeðferð við ógleði. 80% legudeildarsjúklinga voru mjög ánægðir og 15% ánægðir með ógleðimeðferðina sem þeir hlutu í tengslum við aðgerðina.
  Ályktanir: Tiltölulega hátt hlutfall sjúklinga fékk fyrirbyggjandi ógleðimeðferð þótt nokkuð hafi skort á slíka meðferð hjá hááhættuhópum. Mun fleiri sjúklingar fengu björgunarmeðferð við ógleði á vöknun en þeir sem skráðir voru með ógleði. Þetta bendir til vanskráningar. Aðspurðir kváðust 30% sjúklinga hafa fundið fyrir ógleði fyrsta sólarhringinn eftir aðgerð, sem verður að teljast all hátt hlutfall í alþjóðlegu samhengi. Mögulega mætti lækka tíðni ógleði eftir skurðaðgerðir á Landspítala ef allir sjúklingar með áhættuþætti fengju viðeigandi ógleðivörn.

Samþykkt: 
 • 9.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18013


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BSritgerd.pdf942.53 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna