is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18044

Titill: 
 • Langvinnt eitilfrumuhvítblæði. Nýgengi, aðdragandi greiningar og undanfari
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Langvinnt eitilfrumuhvítblæði (Chronic lymphocytic leukemia: CLL) er eitilfrumukrabbamein sem einkennist af uppsöfnun einstofna B-eitilfruma. MBL (monoclonal B-cell lymphocytosis) er talið vera forstig sjúkdómsins. CLL er hæggengur sjúkdómur sem greinist oft fyrir tilviljun en einkenni eins og eitlastækkanir, slappleiki, aukin þreyta/mæði og sýkingar eru þó vel þekkt. Yfirleitt er CLL greint með blóðhag, vefjagreiningu og/eða frumuflæðisjárrannsókn. Sjúkdómurinn er ólæknandi en lyfjameðferð miðar að því að halda einkennum í skefjum. Þar sem CLL hefur lítið verið rannsakað á Íslandi voru helstu markmið þessarar rannsóknar að kanna nýgengi CLL á Íslandi, greiningaraðferðir, sjúkdómseinkenni og mögulegar hækkanir á eitilfrumutalningu í blóði fyrir greiningu.
  Efniviður og aðferðir: Um er að ræða afturskyggna, lýsandi rannsókn sem nær til CLL sjúklinga sem greindust á árunum 2003-2013. Fengin voru gögn yfir CLL sjúklinga frá Krabbameinsskrá, blóðmeinafræðideild LSH og Læknasetrinu í Mjódd. Sjúkraskrár þessara sjúklinga voru skoðaðar með tilliti til einkenna við greiningu CLL og greiningaraðferða. Eitilfrumutalningar í blóði fyrir greiningu voru skoðaðar í Sögukerfi LSH, Læknasetri og í Heklukerfinu. Einnig voru skráð ýmis blóðgildi við greiningu, lyfjameðferðir og lifun.
  Niðurstöður: Fjöldi sjúklinga sem greindist á umræddu árabili var 161; 109 karlar (67,7%) og 52 konur (32,3%). Nýgengi CLL á Íslandi mældist 4,55/100.000 á ári en aldursstaðlað nýgengi 3,00/100.000. Meðalaldur við greiningu var 70,9 ár (aldursbil 35-96 ár). 28 sjúklingar (17,4%) voru ekki skráðir í Krabbameinsskrá. Upphafleg greining CLL var í 47,2% tilfella eingöngu gerð með flæðisjá, 30,4% bæði með vefjagreiningu og flæðisjá og eingöngu með vefjagreiningu í 18,0% tilfella. Við greiningu höfðu 62 sjúklingar (45,3%) einhver einkenni. 37 sjúklingar (27,0%) höfðu þreifanlegar eitlastækkanir, 30 (21,9%) slappleika, 22 (16,1%) höfðu fengið sýkingar og 19 (13,9%) aukna þreytu/mæði. 28 sjúklingar (20,4%) höfðu verið með B einkenni (nætursvita, megrun og/eða hita) fyrir greiningu. 57 (35,4%) sjúklingar úr hópnum höfðu fengið lyfjameðferð við sjúkdómnum og 47 (29,2%) voru látnir þann 1.3.2014. Hækkun eitilfrumutalningar (≥4,0x109/L) í blóði (0,1-13,4 árum) fyrir greiningu fannst hjá 84 af 98 CLL sjúklingum (85,7%) þar sem upplýsingar um eldri blóðhag fundust.
  Ályktanir: Nýgengi CLL á Íslandi er svipað því sem þekkist á Vesturlöndum. Ljóst er að hægt er að bæta skráningu CLL tilfella í Krabbameinsskrá umtalsvert. Eitilfrumuhækkun var til staðar fyrir greiningu hjá stórum hluta sjúklinga, en það gefur tilefni til frekari rannsókna.

Samþykkt: 
 • 12.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18044


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
B.Sc. ritgerð - Gunnar Björn Ólafsson.pdf1.39 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna