is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár) Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18047

Titill: 
 • Íþróttatengd brot og liðáverkar barna á höfuðborgarsvæðinu
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Þátttaka barna í íþróttum hefur marga kosti en er einnig aðalástæða meiðsla hjá börnum sem geta haft í för með sér slæmar afleiðingar. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna íþróttaáverka barna hér á landi og faraldsfræði þeirra.
  Efniviður og aðferðir: Afturskyggn rannsókn sem náði til allra barna, 5-17 ára, sem leituðu á slysa- og bráðamóttöku Landspítala vegna íþróttaáverka 2003-2012. Upplýsingar fengust úr rafrænum sjúkraskrám og af tölvusneið- og röntgenmyndum. Skráð var kyn, fæðingarár, tímasetning slyss, ICD-10 áverkagreining, meðferð, við hvaða íþrótt og hvar slysið átti sér stað. Áverkaskor var reiknað fyrir öll tilfelli brota.
  Niðurstöður: Af 15.752 börnum voru 58% drengir (p < 0,001). Meðalaldur þeirra var 13,7 ár en 13,0 hjá stelpum (p <0,001). Af áverkunum voru 25% brot og 49% liðáverkar. Langstærstur hluti áverka tengdust íþróttum með snertingu. Ekki var marktæk breyting á fjölda áverka á tímabilinu hvorki á strákum (p = 0,15) né stelpum (p = 0,09). Fjöldi áverka jókst með aldri í öllum flokkum íþrótta (p < 0,001) og náði hámarki við 15 ára aldur en tíðni brota náði hámarki fyrr (14 ára). Algengast staður brota var á úlnlið og hönd (53,9%). Hlutfall brota af áverkum var hæst á snjóbretti, hjólaskautum og hjólreiðum. Tognun og ofreynsla á ökkla var algengasti liðáverkinn í öllum aldursflokkum nema hjá börnum á aldrinum 9-12 ára, en þar voru áverkar á handar- og fingurliði algengastir. Jafnframt var það algengasti áverkinn yfir heildina. Miðgildi áverkaskors brota var 4 (spönn 1-20). Af tilfellum brota leiddu 5,4% til innlagnar.
  Ályktanir: Á höfuðborgarsvæðinu eru beinbrot fjórðungur allra áverka tengd íþróttum og liðáverkar helmingur allra áverka. Strákar eru í hærra hlutfalli en stelpur. Brot á úlnlið og hendi eru rúmlega helmingur allra brota og tognun og ofreynsla ökkla er algengasti liðáverkinn. Innlagnartíðni er a.m.k. fimm prósent. Knattspyrna er langalgengasta orsök íþróttaáverka en hlutfall brota er hæst hjá snjóbrettaiðkendum. Áverkar eru svipaðir af gerð og fjölda og þekkist erlendis. Rannsókn þessi gefur vísbendingu um hvar á líkamanum og hvers konar áverka um ræðir við íþróttaiðkun barna en flestir eru þeir minni háttar. Erlendar rannsóknir hafa sýnt fram á alvarlegar og langvinnar afleiðingar íþróttaáverka barna. Þar sem áverkar í rannsókninni eru sambærilegir þeim erlendu má ætla að afleiðingarnar eigi ekki síður við hér. Við teljum því þörf á nánari rannsókn þessu til staðfestingar.

Samþykkt: 
 • 12.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18047


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
BS verkefni - skil2.pdf1.86 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna