is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18083

Titill: 
  • Hljóðkerfisfræðileg máltaka drengs á fjórða aldursári. Athugun á framburði samhljóða og mat á eðli framburðarfrávika
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Ritgerð þessi fjallar um stöðu og þróun hljóðkerfisfræðilegrar hljóðtöku samhljóða hjá dreng (Óliver) á fjórða aldursári. Málhljóðapróf Þóru Másdóttur (2011) sem prófar annars vegar stök samhljóð í fram-, inn- og bakstöðu og hins vegar valda fram- og innstöðuklasa var lagt tvisvar sinnum fyrir Óliver (3;2:8 ára og 3;7:8 ára). Staða málþroska var metin út frá hvoru prófinu fyrir sig og niðurstöður beggja prófa svo bornar saman. Markmiðið var að meta hvort málþroski Ólivers teldist eðlilegur eða óeðlilegur. Svars við þeirri spurningu var fyrst og fremst leitað með því að bera niðurstöður málhljóðaprófanna saman við íslenskar framburðarrannsóknir. Stuðst var við þrjár umfangsmiklar rannsóknir: 1) kandídatsritgerð Sigurðar Konráðssonar (1983) um hljóð- og hljóðkerfisfræðilega máltöku íslenskra barna, 2) framburðarrannsókn Indriða Gíslasonar o.fl. (1986) á 200 íslenskum börnum og 3) doktorsritgerð Þóru Másdóttur (2008) um eðlilega og óeðlilega hljóðkerfisfræðilega máltöku íslenskra barna. Auk rannsókna var gengið út frá kenningu Romans Jakobsons (1941/1968) um málhljóð sem knippi aðgreinandi þátta sem lærast í ákveðinni röð. Í því tilliti var stuðst við aðlögun Eiríks Rögnvaldssonar (1993) á þáttagreiningu fyrir íslensk málhljóð.
    Niðurstaða athugunarinnar á Óliver var í meginatriðum sú að hljóðkerfisfræðileg máltaka hans sé innan eðlilegra marka. Þó nokkuð var um frávik í máli Ólivers, sérstaklega á önghljóðunum /s/, /f/ og /þ/ og sveifluhljóðinu /r/. Frávikin komu bæði fram þar sem hljóðin komu fyrir stök og í klösum. Ástæða þess að málþroski Ólivers telst eðlilegur þrátt fyrir fjölda frávika er að frávikin sem hann gerði voru fullkomlega regluleg, en regluleiki framburðarfrávika er einn af þeim þáttum sem skilgreinir eðlilega máltöku, svo og sú staðreynd að mikil þróun varð á framburði hans á milli prófa. Þar að auki féll málþroski Ólivers vel að niðurstöðum áðurnefndra rannsókna og samræmdist kenningu Jakobsons í veigamiklum atriðum.

Samþykkt: 
  • 12.5.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/18083


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sigfús Helgi Kristinsson.pdf591.06 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna