Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18099
Þessi ritgerð er lokaverkefni til B.A.-prófs í kvikmyndafræði við Háskóla Íslands. Kvikmyndin Órói var frumsýnd haustið 2010. Hún er fyrsta kvikmynd leikstjórans Baldvins Z í fullri lengd. Í ljósi þess að kvikmyndin Órói fjallar um ungan mann, Gabríel (Atli Fjalar Óskarsson) sem uppgötvar kynhneigð sína skipar hún stóran sess í íslenskri kvikmyndagerð þegar hinsegin kvikmyndir eru annars vegar. Órói hlaut góðar viðtökur á Íslandi en ekki síður á kvikmyndahátíðum víða um heim. Bent er á að kvikmyndin var markaðssett sem hinsegin kvikmynd erlendis en í kynningarefni á Íslandi var hvergi minnst á samkynhneigð Gabríels. Í ritgerðinni verður rýnt í Óróa, þar sem feminísk fræði og hinseginfræði eru í forgrunni. Spurningin er hvort að kvikmyndin hjálpar hinsegin fólki í baráttu sinni gegn fordómum. Að vissu leyti gerir hún það, þar sem aðalsöguhetjan kemur út úr skápnum, en það er togstreita innan kvikmyndatextans, þar sem aðrar persónur eru fastar í heljargreipum gagnkynhneigða normsins. Kvenpersónurnar eru flestar uppfullar af skapgerðarbrestum og eru sýndar í andfeminísku ljósi. Karlpersónurnar falla flestar undir ríkjandi karlmennsku (e. hegemonic masculinity). Kvikmyndin stenst Bechdel prófið en með naumindum þar sem flestar samræður milli kvenpersónanna eru um karlmenn. Fordómar hafa ríkt í garð hinsegin fólks, bæði hér heima og erlendis, sem gerir það að verkum að margir eiga erfitt með að viðurkenna kynhneigð sína. Því þarf Gabríel að takast á við sína innri fordóma sem hann hefur erft einmitt vegna hleypidómanna sem ríkja í þjóðfélaginu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
oroi-ba.pdf | 388.37 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |