Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18119
Nietzsche er einn af frægustu gagnrýnendum vestræns siðferðis. Í þessari ritgerð mun ég skoða hvaða ljósi siðagagnrýni hans varpar á auðvaldssamfélagið sem hefur þróast á Vesturlöndum síðan fyrir daga Nietzsches. Nietzsche ræðir ekki oft um auðvaldssamfélagið í verkum sínum og beinir siðagagnrýni sinni ekki að auðvaldssamfélaginu með beinum hætti. En markmið mitt er að sýna fram á að sú siðfræði sem Nietzsche þróar í framhaldi af gagnrýni sinni á siðferðið getur nýst okkur afar vel til að skilja brotalamir auðvaldssamfélagsins.
Margir hafa túlkað skrif Nietzsches sem svo að þau ýti undir kapítalisma og auðvaldssamfélagið en í þessari ritgerð verður því haldið fram að þessu sé þveröfugt farið og Nietzsche hafni hugmyndafræði kapítalisma og setji fram róttæka gagnrýni á auðvaldssamfélagið í heild.
Ég held því fram í þessari ritgerð að eitt mikilvægasta verkefni sem Nietzsche setur sér sé að skoða grunnstoðir samfélagsins nákvæmlega og efast um hverja og eina þeirra.
Ein af þessum grunnstoðum sem að mínu mati er orðin alltof rótgróin og föst í sessi er kapítalismi sem ráðandi afl í efnahagsmálum.
Frá því að Friedrich Engels og Karl Marx settu fram hugmyndir sínar um kommúnisma í „Kommúnistaávarpinu“(1848) hafa varla komið fram hugmyndir sem ógna kapítalismanum.
Ég lít svo á að þrátt fyrir að kapítalisminn hafi gert mikið gagn fyrr á tíðum við að hjálpa til við að koma á lýðræði og brjóta á bak einræði víðsvegar í hinum vestræna heimi sé hann engan veginn einhver lokalausn í efnahagsmálum heimsins. Kapítalismi er í grunninn gallaður og leggur of mikla áherslu á auðsöfnun sem eitthvert lokamarkmið mannkyns. Galla kapítalisma er einungis hægt að leiðrétta eða bæta með því að virkilega efast um hann og leita leiða til að betrumbæta hann. Hvort sem tekst að skipta kapítalismanum út fyrir eitthvað annað kerfi eða ekki er ljóst að litlar breytingar verða ef honum er ekki ógnað á neinn hátt.
Ég býst ekki við að finna kerfi sem mun leysa kapítalismann af hólmi undir eins en tel á hinn bóginn mikilvægt að sú umræða fari fram og tel mig jafnvel geta tekið svo djúpt í árinni að það ætti að vera eitt mikilvægasta verkefni heimspekinga og hagfræðinga sem láta sig velferð samfélagsins varða að leita leiða til að skipta út kapítalisma, ekki bara að betrumbæta hann heldur reyna að upphugsa kerfi sem getur ögrað kapítalismanum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð Óttar.pdf | 911,14 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |