Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18134
Inngangur: Rákvöðvarof orsakast meðal annars af áverkum, vímuefnum og lyfjum, sýkingum, blóðþurrð, langri legu og ofþjálfun. Innihald rákvöðvafruma losnar út í blóð við rof þeirra, meðal annars CK, sem er notaður við greiningu rákvöðvarofs, og vöðvarauði, sem leiðir til nýrnabilunar. Markmið rannsóknarinnar var að kanna faraldsfræði rákvöðvarofstilfella er komu til meðferðar á Landspítala á árunum 2008-2012.
Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var afturskyggn og tók til allra sem komu til greiningar á Landspítala frá 1. janúar 2008 til 31. desember 2012 með CK-gildi yfir 1000 IU/L. Undanskildir voru sjúklingar með CK-hækkun vegna blóðþurrðarsjúkdóms í hjarta. Skráður var tilfellafjöldi, kyn, CK-gildi, dagsetning komu, orsök og staðsetning rákvöðvarofsins, innlagnarlengd ásamt fylgikvillum er þörfnuðust meðferðar.
Orsakir Fjöldi tilfella Hlutfall (%) CK-miðgildi (IU/L)
Misnotkun vímuefna 128 19,8 3.245
Löng lega aldraðra 107 16,5 2.275
Áverkar 84 13,0 2.611
Langar skurðaðgerðir 62 9,6 2.139
Sýkingar 59 9,1 2.871
Súrefnisþurrð í vöðva 54 8,3 4.292
Ofþjálfun / áreynsla 54 8,3 24.132
Önnur orsök 100 15,4 2.926
Niðurstöður: Tilfellin voru alls 648, 215 konur (33,2%) og 433 karlar (66,8%). Miðgildi aldurs var 56 ár. Vikmörk CK-hækkunar voru 1.002 -605.628 IU/L en flestir (65,7%) voru með væga CK-hækkun, þ.e. minna en 5.000 IU/L. Algengustu orsök má sjá í töflu sem og miðgildi CK mælinga. Rákvöðvarof var algengast í ganglimum (26,7%) og griplimum (16,0%) en staðsetning var ótilgreind hjá 53,8%. Einstaklingar sem þurftu innlögn voru 532 en 65 létust. Hólfaheilkenni kom fyrir hjá 21 einstaklingi og bráð nýrnabilun hjá 115 (17,7%) og þurftu 32 blóðskilun. Fylgikvillar komu fyrir hjá yfir 30% í súrefnisþurrðar- og sýkingarflokkunum en hjá 3,7% í ofþjálfunarflokknum. Miðgildi CK-hækkunar var 4.475 IU/L hjá yngri en 50 ára og 2.462 IU/L hjá þeim sem voru eldri (P < 0,001). Fylgikvillar voru algengari hjá þeim síðarnefndu (P < 0,001).
Ályktun: Fleiri karlar en konur fengu rákvöðvarof. Algengustu orsakir voru vegna misnotkunar vímuefna, langvarandi legu aldraða og áverka eftir slys. Alvarlegir fylgikvillar rákvöðvarofs voru algengir. CK-hækkun var meiri í yngri aldursflokkum og fylgikvillar algengari í eldri. CK-hækkun varð almennt mest af völdum ofþjálfunar og þar voru fylgikvillar fátíðastir.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni BS Rákvöðvarof Arnljótur Björn Halldórsson.pdf | 963.42 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |