Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18155
Við warfarínblóðþynningu er skömmtun stýrt með annaðhvort prothrombin tíma (PT, Quick PT) eða prothrombin-proconvertin tíma (PP, Owren PT). Bæði prófin eru næm fyrir K-vítamín háðu storkuþáttunum FII, FVII og FX en rannsóknir hafa þó sýnt fram á að storkuþáttur VII hefur minnst áhrif á endanlega storkugetu af þessum þremur þáttum auk þess sem helmingunartími hans er umtalsvert styttri. Fiix-PT er nýtt blóðstorkupróf sem er aðeins næmt fyrir áhrifum storkuþátta II og X en ekki storkuþætti VII. Nú er í gangi rannsókn hérlendis, Fiix rannsóknin, með 1125 þátttakendum á warfarín blóðþynningarmeðferð sem eru í eftirliti hjá segavörnum Landsspítala til þess að meta ávinning Fiix- INR prófsins. Þessi rannsókn er liður í Fiix rannsókninni en tilgangurinn var að meta með mælingum þróun blóðþynningar hjá sjúklingum þegar stýrt er með Fiix-INR (rannsóknarhópur) annars vegar og PT-INR (viðmiðunarhópur) hins vegar með áherslu á þróun storkuþátta II, VII og X. Metin var staða og þróun storkuþátta hjá sjúklingum á stöðugri blóðþynningu, sjúklingum að byrja meðferð og hjá sjúklingum við skammtabreytingar. Sjúklingar á warfarínmeðferð voru valdir í þessi úrtök, sýni tekin frá þeim og mæld í þeim virkni storkuþátta með stöðluðum aðferðum.
Niðurstöður sjúklinga á stöðugri þynningu sýndu svipaða virkni hvers storkuþáttar í rannsóknarhópi og viðmiðunarhópi. Þessi gildi voru notuð til þess að meta meðferðarmörk (markgildi) fyrir storkuþættina og haft til hliðsjónar við mat á öðrum úrtökum.
Storkuþáttamælingar á fyrstu 30 dögum meðferðar voru metnar og bentu þær til stöðugri þynningar hjá rannsóknarhópi. Rannsóknarhópur hafði fleiri INR gildi innan meðferðarmarka og storkuþættir sýndu minni sveiflur auk þess sem þeir héldust betur innan meðferðarmarka. Skammtabreytingar virtust vera markvissari í rannsóknarhópi.
Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að notkun Fiix-INR prófsins við stýringu warfarínmeðferðar leiði til stöðugri þynningar og þar af leiðandi hugsanlega betri meðferðar með færri inngripum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Diplomaverkefni-petur-lokaskil.pdf | 11,74 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |