Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18353
Tilgangur: Verkir eru stórt heilsufarsvandamál og eru algengasta heilbrigðisvandamál sem heilbrigðisfagfólk fæst við. Rannsóknir á lyfjanotkun barna eru fáar en margar rannsóknir staðfesta að verkir eru algengir meðal barna og unglinga. Nýlegar rannsóknir hafa sýnt að algengi verkja meðal barna og unglinga hafi aukist mikið síðastliðin 20 ár. Því þykir áhugavert að rannsaka verkjalyfjanotkun og sjálfskömmtun verkjalyfja meðal barna og unglinga. Megintilgangur þessarar forrannsóknar er að skoða algengi verkja og sjálfskömmtun verkjalyfja á meðal barna og unglinga á aldrinum 12-16 ára á höfuðborgarsvæðinu.
Aðferð: Stuðst var við lýsandi megindlegt þversnið. Spurningalisti sem samanstóð af 31 spurningu var lagður fyrir þægindaúrtak 40 barna sem fengið var með snjóboltaúrtaki, 5 stúlkur og 5 drengir í hverjum árgangi í sjöunda til tíunda bekk á höfuðborgarsvæðinu. Helstu breytur voru bakgrunnsbreytur (s.s. kyn, bekkur, félagsleg staða), tíðni og tegund verkja og verkjalyfjanotkunar og vitneskja barna um verkjalyf og meinta ástæðu verkja og verkjalyfjanotkunar. Niðurstöður voru bornar saman við niðurstöður erlendra rannsókna.
Niðurstöður: Fjörtíu prósent barna upplifðu verk mánaðarlega og algengasti verkur var höfuðverkur. Tæplega helmingur (45%) barna sem höfðu upplifað verk á síðastliðnum sex mánuðum höfðu tekið verkjalyf. Stelpur voru ávallt í meirihluta, þær upplifðu oftar verki og tóku oftar verkjalyf. Algengi sjálfskömmtunar verkjalyfja reyndist vera 37,5%, en algengast var að foreldrar/forráðamenn skömmtuðu verkjalyfinu og veittu ráð um notkun þeirra. Algengasta orsök verkja reyndist vera íþróttaiðkun og helstu afleiðingar verkja á dagsdaglegt líf þátttakenda voru að þeir gátu ekki stundað áhugamál vegna verkja.
Ályktun: Algengi verkja og verkjalyfjanotkunar samræmist erlendum niðurstöðum sem sýna að börn fái verki sem hafa áhrif á daglegt líf. Rannsóknin er forrannsókn og ætla má að niðurstöðurnar muni geta hvatt til frekari rannsókna á algengi verkja og sjálfskömmtunar lyfja þar sem sjálfskömmtun verkjalyfja hefur ekki verið könnuð áður á Íslandi.
Lykilorð: Verkir, sjálfskömmtun, verkjalyfjanotkun, unglingar.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaverkefni.pdf | 1.17 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |