Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18362
Gögnin sem liggja þessari þjóðfræðilegu rannsókn til grundvallar lúta að reynslu fólks af gestrisni í svokölluðum sófaheimsóknum.
Viðmælendur mínir eiga það sammerkt að vera skráðir þátttakendur á vefsíðunni Couchsurfing. Ef marka má skilaboðin sem koma fram á vefsíðunni sjálfri byggir gestrisnin á trausti, manngæsku, góðsemi og hjálpsemi gagnvart ókunnugum fyrir utan að vera óeigingjörn athöfn og andkapítalísk, jafnvel farvegur andófs og umburðarlyndis. Rannsóknin leiðir í ljós að upplifun af gestrisni í sófaheimsókn er í kjarna sínum upplifun af margbreytilegum samskiptum. Mikið og margvíslegt taumhald fer fram á vefsíðunni sem og í umhverfi sófafélaga en hinn almenni ótti við ókunnuga veldur meðal annars því að meðlimir sófasamfélagsins upplifa gestrisni sófafélaganna oft mikla, mikilvæga og mann- og heimsbætandi.
Gestur og gestgjafi tilheyra sömu stund og sama stað þann tíma sem heimsóknin varir. Andrúmsloftið sem sóst er eftir að mynda og taka þátt í er afslappað, gestir krefjast ekki mikils, þátttakan er frjálst val sófafélaga. Í ánægjulegustu móttökunum upplifa gestir og gestgjafar einingu með þeim sem þeir hitta og vígslu inn í margvíslega hópa. Afgerandi einkenni á gestrisniupplifun viðmælenda minna er að gestir og gestgjafar mynda tengsl og fara yfir huglæga og efnislega þröskulda. Tengslin eru auk þess margbreytileg en við að eiga í samskiptum, gefa og þiggja til skiptis umbreytist sýn gesta og gestgjafa á sjálfa sig, aðra og heiminn sem þeir tilheyra. Þeir sem upplifa gestrisni í þessum aðstæðum lýsa henni sem gjöf sem beri að endurgjalda. Hún er endurgoldin innan kerfisins ekki síður en á milli þeirra sem hittast.
Rannsóknin kallast á við kenningar heimspekingsins Jacques Derrida um gestrisni, hugmyndir félags- og mannfræðingsins Pierre Bourdieu um auðmagn og stéttmyndun, rannsóknir þjóðfræðingsins Arnold van Gennep og mannfræðingsins Victor Turner á innvígsluathöfnum, ásamt kennisetningum mannfræðingsins Marcel Mauss um gjöfina.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Vel skal fagna góðum gesti.pdf | 1,59 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |