is Íslenska en English

Lokaverkefni (Diplóma bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Diplómaritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18394

Titill: 
 • Tjáning á CD40 og CD40L á B- og T-eitilfrumum fyrir og eftir örvun. Samanburður á örvunaraðferðum
Námsstig: 
 • Diplóma bakkalár
Útdráttur: 
 • T- og B-eitilfrumur eru partur af sérhæfða ónæmiskerfinu og gegna hlutverki í vessabundnu og frumubundnu ónæmi. Þær eiga uppruna sinn að rekja til til fjölgæfra blóðmyndandi stofnfrumna í beinmerg sem verða að eitilfrumuforvera. Forstigs T-frumur flytja sig frá beinmerg yfir í hóstarkirtil þar sem þær þroskast. B-frumur gangast undir vakaóháðaþroskun í beinmerg, en fyrir vakaóháða þroskun þurfa B-frumur að fara í gegnum kímstöðvarhvarf.
  Þegar T-hjálparfrumur þekkja peptíð:MHC flokk II flóka á B-frumum, fara þær að framleiða stýrisameindir, bæði himnubundnar og til seytingar sem aðstoða við ræsingu B fruma. Af þessum stýrisameindum er CD40 bindill (CD40L) sérstaklega mikilvægur. CD40L er meðlimur í tumor necrosis factor (TNF) fjölskyldunni sem binst CD40 á B- frumum. Samskipti CD40L og CD40 eru nauðsynleg fyrir myndun virkjaðra kímstöðva (e. Germinal centers, GC) í eitilvef, B-frumu fjölgun, flokkaskipta endurröðun (e. Class switch recombination, CSR) og myndunar punktstökkbreytinga (e. Somatic hypermutation, SHM) í breytilega svæði immúnóglóbúlína.
  Markmiði rannsóknarinnar var að kortleggja tjáningu á B- og T-eitilfrumum strax eftir einangrun úr blóði en einnig eftir örvun með pokeweed mitogeni (PWM) annars vegar og með phorbol myristate acetate (PMA) og phytohaemagglutinin (PHA) hins vegar. Athyglin beindist að boðum CD40 og CD40L fyrir og eftir örvun. Heilblóðssýni voru tekin úr sjálfboðaliðum og einkjarna frumur einangraðar. Frumurnar voru síðan ræktaðar og mótefnalitaðar eftir örvun, eða mótefnalitaðar strax eftir einangrun. Tjáning yfirborðssameinda var greind með frumuflæðisjá (FACS).
  Örvun með PWM sýndi litla tjáningu CD40L á T-frumum. Hvað B-frumur varðaði var greinileg tjáning á CD40 en hlutfall CD40 jákvæðra frumna virtist ná hápunkti í kringum fimmta dag ræktar. Þar sem ekki kom upp marktæk tjáning hjá CD40L er líklegt að B-frumurnar séu að örvast eftir öðrum leiðum en með CD40-CD40L samskiptum. Eftir ræktun með PHA og PMA í sólarhring var greinileg hækkun á hlutfalli örvaðra T-frumna og þegar litið var á tjáningu CD40L kom í ljós greinileg hækkun á bæði hlutfalli frumna sem tjá CD40L og magni tjáningar. Marktækur munur var á magni tjáningar CD40L þegar örvað var með PHA og PMA, bæði þegar borið var saman við óörvaðar frumur (p<0,05) og frumur örvaðar með PWM (p<0,005).

Samþykkt: 
 • 26.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18394


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Tjáning CD40 og CD40L .pdf1.17 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna