Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18460
Notkun á frávikalistum við greiningu á hegðunar- og tilfinningavanda barna á leikskólaaldri hefur ekki verið vandkvæðalaus. Aukinn áhugi er á því að skoða geðrænan vanda barna út frá kenningum um eðlilegan þroska. Í þessari rannsókn er þroskamiðaður atferlislisti athugaður í stað frávikalista. Frumsaminn listi sem samanstóð af 110 atriðum um tilfinninga-, siðferðis- og félagsþroska var lagður fyrir í úrtaki mæðra leikskólabarna á aldrinum 2 til 6 ára. Hlutfall stúlkna var 52% og drengja 48%. Menntun mæðra hafði ekki áhrif á svörun á listanum. Atriði listans voru atriðagreind og einungis eitt atriði stóðst ekki atriðagreiningu. Því voru 109 atriði þáttagreind í úrtaki mæðra (N = 411). Niðurstaða þáttagreiningarinnar leiddi í ljós sjö stöðuga þætti: Skaplyndi, Félagstilfinningu, Framfærni, Stjórn, Samkennd, Tilfinningalæsi og Sjálfstraust. Áreiðanleiki þáttanna var á bilinu 0,74 - 0,96 og fylgni á milli þeirra á bilinu -0,01 til 0,58. Þættirnir nálguðust normaldreifingu og voru næmir á breytileika í þroska og kynjamuni. Tengsl voru á milli sjö samfelldra þátta á Íslenska atferlislistanum og fimm kvarða á SDQ-listanum. Skyldar hugsmíðar voru samleitnar en óskyldar hugsmíðar sundurgreindust sem styrkir hugsmíðaréttmæti listans. Niðurstöður rannsóknarinnar eru í samræmi við fyrri hugmyndir um samspil þroska og hegðunar- og tilfinningavanda, þær styðja réttmæti listans.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Lokaskil_BS_Auðun.pdf | 1,89 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |