is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18471

Titill: 
 • Notkun lífssögu til bættrar umönnunar á hjúkrunarheimilum. Forprófun
Námsstig: 
 • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
 • Heilabilun fylgir hrörnun á vitsmunastarfsemi sem veldur truflun í félagslegum samskiptum og skýr breyting verður á því sem áður einkenndi einstaklinginn. Við flutning á hjúkrunarheimili skiptir einstaklingurinn yfir í nýtt umhverfi þar sem starfsmenn þekkja ekki sögu hans og bakgrunn. Geti íbúinn ekki greint frá því hver hann er og hvað hann vill er hætta á að starfsmenn eigi erfitt með að tengjast persónueinkennum hans, upplifi hann sem tóma skel og styðst við umönnun þar sem starfsmenn ráða ríkjum.
  Með viðurkenningu á gagnsemi einstaklingsmiðaðrar umönnunar hafa aðferðir verið þróaðar með það að markmiði að bæta gæði umönnunar fólks með heilabilun. Lífssögunotkun er dæmi um slíka aðferð og sýna rannsóknir fram á jákvæð áhrif þess með aukinni þekkingu starfsmanna á íbúum og þar með bættum samskiptum og einstaklingsmiðaðri umönnun. Hjúkrunarfræðingum ber skylda til að mæta þörfum skjólstæðinga sinna og veita einstaklingsmiðaða umönnun til að tryggja velferð þeirra.
  Í þessari forprófun á rannsókn var athugað hver áhrif notkunar myndrænnar lífssögu yrði á umönnun íbúa með heilabilun á hjúkrunarheimili. Notast var við hálftilraunasnið, íhlutunarhóp og samanburðarhóp þar sem 20 starfsmenn tóku þátt, 10 á hvorri deild, og fjórir íbúar ásamt aðstand-endum, tveir á hvorri deild. Starfsmenn svöruðu sjálfsmatslistum og starfsmenn íhlutunardeildar svöruðu einnig listum til að athuga þekkingu þeirra á íbúum. Viðtal var tekið við íbúa með aðstandendum til að meta upplifun þeirra af búsetu á hjúkrunarheimilinu ásamt því að tekið var lífssöguviðtal við íbúana tvo á íhlutunardeild. Myndræn lífssaga íbúanna tveggja var hengd upp á vegg í herbergi þeirra í fjórar vikur og síðan tekið niður. Að því loknu voru spurningalistar aftur lagðir fyrir starfsmenn á báðum deildum og tekið stutt viðtal við íbúa og aðstandendur á íhlutunardeild.
  Helstu niðurstöður voru þær að þekking starfsmanna á íbúum íhlutunardeildar jókst að meðaltali um 25,4% en starfsmenn mátu þekkingu sína meiri en niðurstöður gáfu til kynna. Litlar breytingar urðu á sjálfsmati starfsmanna, í báðum hópum, á samskiptum sínum við íbúa og sín á milli, en samskipti starfsmanna við íbúa jukust í íhlutunarhópi. Aukin þekking starfsmanna á lífssögu íbúa er líkleg til að leiða til aukningar á samskiptum á milli starfsmanna og íbúa og þar með einstaklingsmiðaðri umönnun.

Samþykkt: 
 • 28.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18471


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Erna Gunnþórsdóttir og Guðfríður Hermannsdóttir.pdf1.03 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna