Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18499
Rannsóknir hafa sýnt fram á áhrif hönnunar vinnurýma á líðan, streitu og frammistöðu starfsfólks. Færri rannsóknir hafa kannað áhrif einstakra persónueinkenna á upplifun fólks á slíku umhverfi. Niðurstöður rannsókna gefa til kynna að persónueinkennin innhverfa og úthverfa ákvarði hversu mikla örvun einstaklingur þurfi frá umhverfinu til að ná sem bestri frammistöðu og vellíðan. Þannig hafa innhverfir almennt hærra örvunarstig en úthverfir og kjósa minni örvun frá umhverfinu heldur en úthverfir, sem sækjast jafnframt frekar í aðstæður sem veita meiri örvun. Tilgangur rannsóknar var að kanna samverkandi áhrif hönnunar vinnurýmis (lokað/opið) og persónuleika (innhverfa/úthverfa) á athygli, leiða og streitu. Þátttakendur (321) tóku úthverfuhluta persónuleikaprófs Eysenck og lögðu mat á sex ljósmyndir af opnum og lokuðum vinnurýmum með tilliti til þriggja breyta: athygli, leiða og streitu. Almennt voru opin vinnurými talin stuðla að minni athygli, minni leiða og meiri streitu. Samvirkni kom fram milli persónuleika og hönnunar vinnurýmis á öllum þremur breytunum. Innhverfir töldu að þeir ættu erfiðara með að beina athygli að krefjandi verkefni í opnum rýmum og töldu opin rými stuðla að meiri leiða og meiri streitu heldur en úthverfir. Úthverfir töldu lokuð vinnurými valda meiri leiða, áttu auðveldara með að beina athygli og upplifðu minni streitu í opnum rýmum heldur en innhverfir. Niðurstöður benda til þess að samspil persónuleikaþátta og hönnunar vinnurýmis geti haft áhrif á athygli, leiða og streitu starfsmanna.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
bs_harpahoddsigurdarudottir_julianagardarsdottir.pdf | 4.61 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |