is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18521

Titill: 
 • Sjálfsmat unglinga á aldrinum 12 – 14 ára á alvarleika á stami þeirra
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Stam getur verið breytilegt milli daga og aðstæðna og því er nauðsynlegt að skrá niður hversu alvarlegt það er á tilteknu tímabili. Það er gert til að kortleggja alvarleikann og mynda grunnlínu við upphaf meðferðar og einnig til að meta framfarir eftir því sem líður á meðferðina. Þekkt er að einstaklingar sem stama geta náð góðum tökum á staminu í vissum talaðstæðum en ekki öðrum. Talmeinafræðingar verja aðeins stuttum tíma með skjólstæðingum sínum í afmörkuðum aðstæðum inn í meðferðarherbergi og hafa því ekki tækifæri til þess að meta alvarleika stamsins hjá skjólstæðingum sínum í mismunandi talaðstæðum í daglegu lífi. Það er því mjög gagnlegt að einstaklingarnir geti alvarleikametið sitt eigið stam á áreiðanlegan hátt.
  Markmið: Fullorðnir einstaklingar sem stama hafa reynst áreiðanlegir matsmenn á eigin stami. Einnig hafa foreldrar barna sem stama reynst áreiðanlegir matsmenn á alvarleika stamsins hjá börnum sínum. Foreldrar og unglingar eyða oft á tíðum fáum tímum sólarhringsins saman og því getur unglingur gefið mun meiri upplýsingar um sitt eigið stam en foreldrar hans. Rannsókn þessi miðar að því að meta hvort unglingar á aldrinum 12–14 ára séu réttmætir í að alvarleikameta þeirra eigið stam með 9 punkta alvarleikastuðli. Einnig var skoðað hvort að unglingarnir gætu áætlað alvarleikann á eigin stami í hverjum talaðstæðum fyrir sig áður en þeir töluðu.
  Aðferð: Þátttakendur áætluðu alvarleikann eigin stams fyrir talaðstæður með 9 punkta alvarleikastuðli og mátu alvarleikann eftir talaðstæðurnar með samskonar stuðli. Talaðstæðurnar voru þrjár innan meðferðarherbergis og þrjár utan meðferðarherbergis. Tekið var upp á myndband þegar unglingarnir töluðu. Upptökurnar voru alls tólf fyrir hvern þátttakanda þar sem tekið var upp tvisvar sinnum í hverjum talaðstæðum. Rannsakandi alvarleikamat stamið með 9 punkta alvarleikastuðli af upptökunum og taldi einnig stömuð og óstömuð atkvæði. Fyrra og seinna alvarleikamat þátttakenda var borið saman og mat rannsakanda og þátttakenda einnig.
  Niðurstöður: Unglingarnir voru nokkuð stöðugir í áætluðu mati á alvarleikanum á stami þeirra. Áætlað mat þeirra fyrir talaðstæður endurspeglaði þó ekki raunverulegt mat þeirra eftir talaðstæður að fullu. Unglingarnir mátu stam sitt tvisvar í hverjum talaðstæðum fyrir sig á ólíkum tíma og mátu þeir alvarleikann svipað í fyrra skiptið og seinna skiptið en ekki nákvæmlega eins. Alvarleikamati unglinganna og alvarleikamati rannsakanda bar ekki vel saman. Þeim unglingum sem stömuðu alvarlegast bar minnst saman við rannsakanda. Þeim þátttakendum sem voru vanir að alvarleikameta stam sitt og þeim sem stömuðu vægast bar mest saman við rannsakanda. Fylgni fannst aðeins á milli alvarleikamats þátttakenda og rannsakanda í þremur af sex seinni talaðstæðum.
  Ályktanir: Niðurstöður benda til að hægt sé að nota 9 punkta alvarleikastuðul við sjálfsmat unglinga á aldrinum 12–14 ára á þeirra eigin stami í meðferð og rannsóknum ef þeir hafa hlotið þjálfun og æfingu í að meta sitt eigið stam. Varast ber að ganga út frá því að áætlaður alvarleiki unglinga á aldrinum 12–14 ára á stami þeirra endurspegli raunverulegt alvarleikamat á stami þeirra.

Samþykkt: 
 • 30.5.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18521


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Berglind Bjarnadóttir.pdf858.55 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna