Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18554
Áráttu- og þráhyggjuröskun einkennist af endurteknum og óvelkomnum hugsunum, hvötum eða ímyndum sem valda kvíða og streitu og knýja viðkomandi til endurtekinnar hegðunar eða hugræns ferlis. Sú hegðun eða hugræna ferli er til þess fallið að minnka vanlíðan og/eða koma í veg fyrir að hugsanirnar verði að veruleika. Nýlega hefur verið lagt til að flokka megi þráhyggju í annað hvort sjálfkveikta (e. autogenous) eða viðbragðskveikta (e. reactive) þráhyggju. Þessir flokkar eru taldir hafa ólík tengsl við næmis- og viðhaldandi þætti í áráttu- og þráhyggjuröskun, svo sem viðhorf og undirliggjandi taugasálfræðilega þætti. Tilgangur þessarar rannsóknar var að kanna tengsl einkenna, viðhorfa og taugasálfræðilega þátta við sjálfkveikta og viðbragðskveikta þráhyggju. Gögn frá samtals 217 kvenkyns háskólanemum sem voru þátttakendur í tilraunum á hugsanastjórn í áráttu og þráhyggju, var slegið saman og þau greind. Allir þátttakendur greindu frá eigin uppáþrengjandi hugsun, svöruðu sjálfsmatslistum og tóku taugasálfræðileg próf. Voru hugsanirnar flokkaðar í sjálfkveikta og viðbragðskveikta þráhyggju og voru tengsl þessara flokka við einkenni, viðhorf og taugasálfræðilega þætti skoðuð. Búist var við svipuðum alvarleika einkenna, aukinni ábyrgðarkennd og fullkomnunaráráttu þeirra með viðbragðskveikta þráhyggju en að þeir með sjálfkveikta þráhyggju teldu hugsanir sínar mikilvægari og mikilvægara að stjórna þeim. Enn fremur að þátttakendur með sjálfkveikta þráhyggju kæmu verr út á taugasálfræðilegum prófum sem mæla vinnslurýmisgeymd og svarhömlun. Samanburður meðaltala leiddi í ljós aukin áráttu- og þráhyggjueinkenni þátttakenda með viðbragðskveikta þráhyggju auk þess sem slíkar hugsanir komu oftar upp og tengdust aukinni ábyrgðarkennd. Hins vegar var ekki marktækur munur á viðhorfum til mikilvægi hugsana, mikilvægi stjórnun hugsana, hvatvísi, athyglisstjórn né á taugasálfræðilegum mælingum á svarhömlun og vinnslurýmisgeymd. Þessar niðurstöður benda ekki til að munurinn á sjálf- og viðbragðskveiktri þráhyggju sé skýr hvað varðar mælingar á viðhorfum og taugasálfræðilegum þáttum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Mismunandi flokkar þráhyggju og tengsl þeirra við einkenni, viðhorf og taugasálfræðilega þætti.pdf | 461.92 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |