Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18629
Markmið þessarar rannsóknar var að kanna áhrif stýrðrar kennslu og fimiþjálfunar á færni nemanda í stærðfræði. PISA-könnunin sýndi að færni nemenda á Íslandi hefur hrakað síðastliðinn áratug. Mikil þörf er fyrir raunprófaðar kennsluaðferðir í skólakerfinu því fjöldi nemenda í sérkennslu hefur aukist til muna síðustu 15 árin. Stýrð kennsla (e. Direct Instruction, DI) er raunprófuð kennsluaðferð sem leggur áherslu á góða og vel skipulagða kennslutíma. Fimiþjálfun, sem einnig er raunprófuð aðferð og oft notuð með stýrðri kennslu, er kerfisbundin leið til að meta gögn og þjálfa sig til að ná fullri færni í námsefni. Þátttakandinn í rannsókninni var 14 ára drengur með málþroskaörðugleika sem fékk kennslu með þessum aðferðum. Tilgáta þessarar rannsóknar var sú að færni þátttakandans í stærðfræði myndi aukast með aðferðum stýrðrar kennslu ásamt fimiþjálfun. Niðurstöðurnar studdu þessa tilgátu og náði þátttakandi fullri færni á öllum skrefum stærðfræðikennslunnar. Bæði stýrð kennsla og fimiþjálfun hafa sýnt góðan árangur en þó ekki fengið verðskuldaða útbreiðslu hér á landi. Með þessum aðferðum verður kennsla markvissari og getur það sparað mikla fjármuni, sem og gefið börnum frekari tækifæri.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Bs verkefni.pdf | 500.53 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |