is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Umhverfisdeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Umhverfisdeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18671

Titill: 
 • Gæðaprófanir á viði úr íslenskum skógum sem byggingarefni
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Rannsóknin var gerð til að fá hugmynd um hvort grisjunarviður úr íslenskum nytjaskógum stæðust þær kröfur sem gerðar eru til efnis sem notað er í burðarvirki við mannvirkjagerð hér á landi.Þar sem ræktunarlota nytjaskóga á Íslandi er að jafnaði 80-120 ár,en flestir ræktaðir skógar eru yngri en 50 ára, þá er það ljóst að það verður einkum grisjunarviður sem mun standa undir timburnytjum hér innanlands næstu áratugina. Mikilvægt er að þekkja eðliseiginleika þess hráefnis sem verið er að framleiða, þar sem að gæði eru metin eftir hinum ýmsu eiginleikum. Þessi sömu gæði eða eiginleikar eiga svo aftur stóran þátt á hve verðmætar afurðir er hægt að skapa úr hráefninu.
  Í verkefninu voru skoðaðir nokkrir eðliseiginleikar viðar fjögurra mismunandi trjátegunda (rauðgrenis, sitkagrenis, stafafuru og alaskaaspar) úr Haukadalsskógi í Bláskógabyggð.Til samanburðar voru einnig gerðar prófanir á sýnum úr vottuðu innfluttu styrkflokkuðu efni (fura í flokki T1). Eiginleikar til skoðunar voru grunneðlisþyngd (e. basic density), beygjutogþol (e. bending strength - MOR), stífni (e. modulus of elasticity - MOE) og þrýstiþol (e. compression strength).
  Grunneðlisþyngd var jafnframt mæld á sneiðum úr bol trjánna og var sá þáttur í höndum Sævars Hreiðarssonar, sem hluti meistaraverkefnis hans í skógfræði. Prófanir á styrkeiginleikum voru gerðar á litlum gallalausum sýnum samkvæmt viðurkenndum aðferðum og voru þær framkvæmdar af höfundi í tækjum í eigu Nýsköpunar-miðstöðvar Íslands. Sýni voru tekin á einum stað (á y-ás), eða í miðjum 4,2 metra rótarstokk trjánna (2,1 meter frá rótarstubb), en fjöldi þeirra á x-ás réðst af þvermáli trjánna og var fyrsta sýni hvers einstaklings tekið í um 20 til 25 mm fjarlægð frá merg.
  Tegundirnar voru bornar saman og í ljós kom að alaskaösp mældist með marktækt hærri eðlisþyngd en allar hinar tegundirnar og einnig mældist stafafura með marktækt hærri eðlisþyngd en sitkagreni. Hvorki reyndist vera marktækur munur á beygjutogþoli né þrýstiþoli sýna næst merg þegar tegundirnar voru bornar saman. Prófanir á stífni mislukkuðust vegna skekkju í mælingum og var ekki hægt að nota niðurstöður þeirra í neinum samanburði. Þegar skoðað var hvort munur væri á eiginleikum innan tegunda eftir staðsetningu á x-ás kom í ljós að þrýstiþol í stafafuru mældist marktækt hærra fjær merg, annars greindist ekki marktækur munur á beygjutogþoli eða þrýstiþoli innan tegunda. Þegar samband milli einstakra eðlisþátta var skoðað kom í ljós að marktækt samband var á milli grunneðlisþyngdar annars vegar og beygjutogþols og þrýstiþols hins vegar hjá sitkagreni með þeim hætti að styrkur jókst með hærri eðlisþyngd. Einnig mældist marktækt samband milli brjósthæðarþvermáls og þrýstiþols hjá rauðgreni með þeim hætti að þrýstiþol lækkaði eftir því sem brjósthæðarþvermál trjánna jókst.
  Þegar innlenda efnið var borið saman við innflutt flokkað efni kom í ljós að styrkur innflutta efnisins var marktækt hærri en innlenda efnisins, enda þá væntanlega verið að bera saman innlent grisjunarefni og innflutt efni úr trjám felldum í lok ræktunarlotu. Jafnframt voru niðurstöður úr prófunum á innlenda efninu í flestum tilfellum lægri en þekkt gildi fyrir sömu eða sambærilegar trjátegundir í nágrannalöndunum. Margar skýringar kunna að vera á því eins og t.d. ungur aldur trjánna sem prófuð voru. Mismunandi aldur er nærtækasta skýringin, en einnig kunna að liggja að baki aðrar skýringar sem ekki er hægt að greina nema með mun stærra úrtaki sem næði yfir fleiri einstaklinga, fleiri sýni innan einstaklinga og til fleiri landshluta. Þegar skoðað var hvernig innlenda grisjunarefnið myndi mögulega flokkast eftir staðlinum ÍST EN 338:2009 um styrkflokkun timburs kom í ljós að vísbendingar eru um að alaskaösp stæðist C-27, rauðgreni C-24, sitkagreni C-20 og stafafura C-18. Þetta þýðir að alaskaösp og rauðgreni myndu lenda í hönnunarflokknum T-2, en stafafura og sitkagreni í flokknum T-1. Innlenda grisjunarefnið væri með öðrum orðum nothæft í burðarvirki í flestum tilfellum samkvæmt þessari flokkun.

Samþykkt: 
 • 5.6.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18671


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
2014_BS_Ivar_Orn_Thrastarson.pdf1.35 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna