is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Auðlindadeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Auðlindadeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18681

Titill: 
 • Vatnsdrykkja reiðhrossa í þjálfun
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Vatnsdrykkja18 íslenskra reiðhrossa í þjálfun með meðalaldur 16 ár og að þyngd = 392 kg ± 14 kg sem haldin eru á húsi var rannsökuð (hópur 1). Athugað var samband þjálfunar og vatnsdrykkju og neyslumynstur athugað.
  Komið var fyrir rennslismælum á lagnir að brynningarskálum sem lesið var á með reglulegu millibili. Fóðurdallar að flatarmáli 27cm*27cm voru settir undir brynningarskálar til að fanga það vatn sem ekki var drukkið og sullað til hliðar. Tilraunahross í hópi 1 voru þjálfuð þrisvar í viku, eina klukkustund í senn. Þau voru vigtuð fyrir og eftir þjálfunarstund til að meta þyngdartap í formi svita. Vatnsdrykkjan var mæld í eina viku hjá hverju hrossi.
  Meðaltal vatnsdrykkju mældist 15,4 l/dag eða 39,2 ml/kg lífþunga og meðal vatnsupptaka, með vatni í fóðri, var 17,4 l/dag. Mikill breytileiki var á mældum gildum, dagleg vatndrykkja mældist frá 3,8 l að 34,3 l.
  Annar hópur, alls 5 hross voru athuguð sérstaklega en hann samanstóð af hrossum sem grunuð voru um umtalsvert meiri vatnsneyslu en eðlilegt þykir (hópur 2). Það mat byggðist á því hversu mikið þeir bleyttu jafnan stíurnar og þurftu mikinn undirburð. Þessi hross voru ekki þjálfuð þegar vatnsdrykkja þeirra var mæld.
  Hámarktækur munur(P<0,001) mældist á vatnsdrykkju milli einstaklinga. Marktækur munur mældist á vatnsdrykkju milli hópa 1 og 2 (P = 0,0029). Vatnsdrykkja hóps 2 var að meðaltali 51,8 l/dag og vatnsupptaka 53,8 l/dag. Dreifingin var 15,3 l til 154,1 l/dag. Mikla athygli vakti sérlega eitt hross, Þeba frá Hólum, en dagleg vatnsdrykkja hennar var að meðaltali 137,3 l/dag, eða 306,3 ml/kg l.þ. og 34,3 l/kg þurrefni. Þessi neysla er um tífaldar þarfir miðað við fyrri rannsóknir (Cymbaluk, 1989, Groenendyk, 1988, NRC 2007). Þeba, ásamt Hetju frá Hólum, mældust með vatnsdrykkju yfir 100 ml/kg l.þ. og greinast því með polyuria/polydipsia, eða ofsaþorsta/ofsamigu. Nokkrar ástæður geta verið fyrir því, s.s nýrnabilun, skert hormónastarfsemi, hegðunar/atferlisvandamál o.fl. Einnig er möguleiki á equine metabolic syndrome, EMS en frekari rannsókna er þörf til að staðfesta það.
  Sveiflur í vatnsdrykkju innan sólarhrings voru ennfremur athugaðar. Hjá hrossum í hópi 1 var 18,5% magnsins innbyrt frá 7 að morgni til 12 á hádegi, 18,3% frá 12-17, 60,2% frá 17-22 og 3,0% frá 22 til 7 morguninn eftir. Dægursveiflur hóps 2 voru 18,0% frá kl. 7-12, 20,3% frá 12-17, 37,1% frá 17-22 og 24,6% frá 22-7 morguninn eftir. Greinilega sést að hestar grunaðir um óhóflega vatnsneyslu drekka mun meira seint að kveldi eða að nóttu til, á meðan stærsti hluti vatnsneyslu hóps 1 á sér stað eftir gjafir, mest eftir kvöldgjöf , stærstu gjöf sólahringsins.
  Ekki fannst marktæk fylgni milli meðalvatnsdrykkju og aldurs, þyngdar, þurrefnis í heyi eða meðalsvitnunar vegna þjálfunar.
  Ljóst er að breytileiki í vatnsdrykkju er gríðarlegur og full ástæða er að íhuga hvort hross sem innbyrða vatnsmagn langt umfram áætlaðar þarfir eigi við atferlisleg eða líffræðileg vandamál að stríða. Leiða verður hugann að því hvort að þær aðstæður sem reiðhestar á Íslandi eru jafnan haldnir við, að hestar hafi ávallt frjálsan aðgang að vatni, geti í raun verið óhollar aðstæður fyrir einstaklinga sem hættir til ofnneyslu vatns auk þess að vera mjög kostnaðarsamt vegna aukins undirburðar.

Athugasemdir: 
 • Athugasemdir er á óskilgreindu tungumáli Útskrift frá:
  Háskólanum á Hólum - Hestafræðideild
  Landbúnaðarháskóla Íslands - Auðlindadeild
Samþykkt: 
 • 5.6.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18681


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
2014_BS_Einar_Asgeirsson.pdf665.47 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna