is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Landbúnaðarháskóli Íslands > Auðlindadeild (2005-2016) > B.S. verkefni - Auðlindadeild >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18684

Titill: 
  • Samanburður á kynbótadómum íslenskra hrossa milli sýninga og mat á föstum hrifum sýningartilfellis
Námsstig: 
  • Bakkalár
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Ræktendur íslenska hestsins styðjast í vaxandi mæli við kynbótamat við val á undaneldisgripum. Sífellt er verið að vinna að þróun þess svo að það verði sem áreiðanlegast. Núverandi kynbótamat er alþjóðlegt og byggir á hæsta aldursleiðrétta alþjóðlega kynbótadómi hvers einstaklings og er gefið út mat á sextán eiginleikum auk þriggja heildareinkunna: byggingar, hæfileika og aðaleinkunnar kynbótadóms. Í kynbótamatinu er annarsvegar leiðrétt fyrir föstum samhrifum kyns og aldurs og hinsvegar fyrir samhrifum sýningarlands og sýningarárs enda hafa rannsóknir sýnt að þau hrif hafa marktæk áhrif á niðurstöður matsins.
    Ágæti kynbótamatsins er háð þeim gögnum sem það byggir á og talsverð umræða hefur verið í samfélagi hestamanna um hversu samanburðarhæfir alþjóðlegir kynbótadómar eru. Markmið þessarar rannsóknar var því að athuga hvort marktækur munur væri milli sýningartilfella innan og milli landa með því að skoða föst hrif sýningartilfellis út frá endurteknum dómum. Auk þess var lagt mat á hvort réttara kynbótamat fengist með því að leiðrétta fyrir sýningartilfelli í stað samhrifa sýningarlands og -árs.
    Gögnin byggðu á 330 kynbótasýningum, frá fimm löndum, á árunum 2000-2013 þar sem sýnd voru 25 eða fleiri hross. Þar sem rannsóknin byggði á að nota endurtekna dóma þurfti að endurmeta erfðastuðla og var það gert með núverandi kynbótamatslíkani. Kynbótamat og mat fastra hrifa var svo gert með metnum erfðastuðlum þar sem annars vegar var leiðrétt fyrir föstum hrifum sýningartilfellis og hins vegar fyrir samhrifum lands og árs. Forritapakkarnir DMU og SAS voru nýttir við tölfræðilega úrvinnslu og kynbótafræðilega útreikninga.
    Tæplega helmingur þeirra hrossa sem til kynbótadóms koma, mæta oftar en einu sinni og hækka hrossin að meðaltali um 0,19 í aðaleinkunn frá fyrstu til síðustu sýningar. Umhverfisþættirnir kyn, aldur, land, ár og sýning höfðu allir hámarktæk áhrif á dóma en sýning skýrði mestan breytileika í einkunnum. Þrátt fyrir það reyndist matið á föstum hrifum sýninga (BLUE) ekki marktækt á aðaleinkunnir í Þýskalandi, en annars staðar reyndist það marktækt og hámarktækt. Í Þýskalandi virðist sem dómar hafi verið hærri en búast hefði mátt við, með hliðsjón af meðalkynbótamati á þarlendum sýningum, í samanburði við meðaltöl dóma og kynbótamats á sýningum í öðrum löndum. Slíkt getur leitt til þess að kynbótamat hrossa, sem byggir á þýskum dómum, sé skekkt.
    Áreiðanleiki kynbótamatsins var sambærilegur hvort sem núverandi líkan var notað eða þar sem leiðrétt var fyrir föstum hrifum sýningar og var fylgni milli þessara tveggja aðferða mjög mikil (99,7%-99,8%). Einungis 2% allra dæmdra hrossa sem gagnasafnið náði yfir hlaut hæsta aldursleiðrétta dóm á stórmóti. Við það að sleppa dómum á stórmótum munu þessi 2% lækka að meðaltali um einungis 0,08 í aðaleinkunn og því má ætla að það hafi ekki teljandi áhrif á heildarniðurstöðu kynbótamatsútreikninga. Til þess að meta hvort leiðrétting fyrir sýningartilfelli gefi áreiðanlegra kynbótamat, miðað við núverandi kerfi, er þörf á því að endurmeta öryggi kynbótamatsins þar sem hæsti aldursleiðrétti dómur liggur til grundvallar í stað endurtekinna dóma eins og byggt var á í þessari rannsókn.
    Á heildina litið er þörf fyrir aukið samræmi í kynbótadómum svo tryggt sé að þau gögn sem lögð eru til grundvallar kynbótamatinu séu sambærileg. Í þessu ljósi þarf að huga að framkvæmd kynbótadóma, staðla sýningaraðstæður enn frekar og jafnvel auka menntun dómara svo tryggt sé að dómar verði algjörlega samaburðarhæfir milli sýningartilfella.

Athugasemdir: 
  • Útskrift frá:
    Háskólanum á Hólum - Hestafræðideild
    Landbúnaðarháskóla Íslands - Auðlindadeild
Samþykkt: 
  • 5.6.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/18684


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
2014_BS_Heimir_Gunnarsson.pdf597,73 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna