Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18685
Margir íslendingar stunda hestamennsku og mikill fjöldi hrossa eru í útigangi að vetri til um land allt. Þrátt fyrir þennan mikla fjölda liggja litlar upplýsingar um aðbúnað hrossa á útigangi og ekki hefur verið tekið saman hvernig að útigangi hrossanna sé almennt staðið. Markmiðið með þessu verkefni var að kanna hvernig aðbúnaði hrossa á útigangi um allt land væri háttað og hvernig að honum staðið.
Á Íslandi búa hestamenn við þann munað að það er mikið um stór landsvæði sem gefur færi á að haga útigangi öðruvísi en í mörgum öðrum löndum. Mikið hefur breyst undanfarin ár og áratugi bæði hvað varðar þekkingu á þörfum hrossa, sem og hvaða hlutverkum hross sinna hérlendis. Samkvæmt lögum eiga öll hross sem eru í útigangi frá 1. október til 1. júní að hafa aðgang að skjóli, ef ekki er náttúrulegt skjól til staðar skal útvega manngert skjól. Í lögum stendur einnig að það þarf að fylgjast daglega með hrossum í vetrarútigangi. Það er þó greinilegt þegar keyrt er um sveitir að þessu er ekki framfylgt alls staðar og aðstæður sem útigangshross lifa við mjög misjafnar.
Með þessari könnun voru umsjónarmenn og eigendur hrossa spurðir út í ýmis atriði sem viðkoma hrossum í útigangi. 356 einstaklingar svöruðu og var heildarfjöldi hrossa sem svarað var fyrir 8.032,5. Þar sem bæði voru spurðir einstaklingar sem eru sjálfir að sjá um hross í hagagöngu sem og þeir sem greiða öðrum fyrir þá þjónustu, þá er möguleiki á að sum hross séu tvítalin. Flest svör bárust frá suðurlandi og höfðu 65% þátttakenda hross í sinni umsjá í hagagöngu. Mörg atriði komu vel út á meðan önnur reyndust ekki eins góð. Í sumum tilvikum virðast umsjónarmenn ganga þvert á það sem gildandi reglugerðir segja til um. Þegar skoðaðar eru niðurstöður úr viðhorfshluta könnunarinnar virðast þó flestir vera sammála um mikilvægi þess að sjá hrossum í útigangi fyrir ákveðnum atriðum.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
2014_BS_Sigrun_Edda_Halldorsdottir.pdf | 1.79 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |