Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18686
Aukin áverkatíðni hrossa sem sýnd eru í kynbótadómi hefur verið vaxandi vandamál síðari ára. Ágrip er sýnilegur áverki á fótum hrossa sem verður til þegar afturhófur snertir eða stígur á hóf, kjúku eða legg framfótar og telst undir engum kringumstæðum til eðlilegs hlutar. Ágrip getur haft mikil áhrif á þann dóm sem hross hlýtur í fullnaðardómi. Ástæður og áhrifaþættir ágripa eru mismunandi. Þekking í dag er nokkuð góð en með vinnu á nýlegri gögnum er hægt að auka við fyrri þekkingu og vinna markvissara að því að draga úr tíðni ágripa meðal kynbótahrossa. Aðalmarkmiðið með eftirfarandi verkefni er að greina helstu ástæður og áhrifaþætti ágripa á þann hátt að hægt verði að draga úr ágripum meðal kynbótahrossa með fyrirbyggjandi hætti.
Gögn rannsóknarinnar voru fengin frá Bændasamtökum Íslands og innihéldu endurtekna fullnaðardóma, umsagnir, mælingar og áverkaskráningu frá tímabilinu 2009-2013 á Íslandi, alls 9445 skráðir dómar á 4934 einstaklingum. Úrvinnsla gagna var gerð með SAS forritapakkanum og í sérhæfðum Fortran forritum. Til þess að meta marktækni þáttanna á heildarágrip var notast við aðhvarfsgreiningu, kví kvaðrat, línulegt líkan og fjölbreytugreiningu. DMU forritunarpakkinn var notaður við mat á erfðastuðlum þar sem notast var við AI-REML aðferðina með línulegu líkani.
Niðurstöður rannsóknarinnar sýna að heildartíðni ágripa var 14.7% sem er í nokkru samræmi við fyrri úttekt (13.7%). Skoðaðir voru nokkrir mismunandi þættir sem geta haft áhrif á ágrip og tíðni þeirra og geta það bæði verið umhverfisþættir sem og líkamlegir þættir.
Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að nokkur hluti sýndra hrossa nær ekki að skila afköstum miðað við þær kröfur sem gerðar eru til þeirra án þess að ganga í sig og hljóta skaða af. Huga þarf vel að umhverfi og ástandi kynbótabrautanna. Áverkaskráning hefur batnað til muna undanfarin ár þar sem gerður er greinarmunur á þeim ágripum, eftir alvarleika, sem falla til. Bætt skráning felur í sér markvissari upplýsingar sem gefa meiri yfirsýn yfir heildartíðni ágripa meðal íslenskra kynbótahrossa.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
2014_BS_Tanja_Run_Johannsdottir.pdf | 1,13 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |