Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/18723
Markmið þessarar rannsóknar var að skoða útiveru leikskólabarna. Viðfangsefnið var meðal annars skoðað út frá því hvernig hreyfing barna birtist í útiveru, það er hvernig börn nýta sér opin svæði leikskólalóðar til hreyfingar og þau leiktæki sem þar er að finna. Við rannsóknina var notuð eigindleg rannsóknaraðferð og gerði rannsakandi vettvangsathuganir. Gögnum var aflað með myndbandsupptökum og ljósmyndum og fór gagnaöflun fram á útisvæði leikskólans. Rannsóknarspurningin sem leitast var við að svara er eftirfarandi: Hvernig nýta fjögurra og fimm ára börn útiveru til hreyfingar? Niðurstöður rannsóknarinnar leiddu í ljós að leikur er ein algengasta birtingarmynd hreyfingar í útiveru leikskólabarna, ásamt því að algengt er að börnin taki þátt í leikjum sem vel má tengja við ólíka leikjaflokka. Þá mátt einnig lesa úr niðurstöðum að börnin nýta opin svæði leikskólalóðarinnar með fjölbreyttum hætti til hreyfingar og leikja. Þá nýta börnin útileiktækin vel, en þar fær hugmyndaflug þeirra að ráða för og tækin eru ekki endilega alltaf nýtt á hefðbundinn hátt. Útivera leikskólabarna virðist þó ekki einungis hafa áhrif á hreyfiþroska þeirra, heldur eflir hún félagsþroska þeirra og tilfinningaþroska, ásamt vitsmunaþroska og málþroska. Af niðurstöðum rannsóknarinnar má draga þá ályktun að við hönnun útisvæðis leikskóla þurfi að hafa margt í huga, til að svæðið nýtist börnunum sem best til hreyfingar og leikja. Einnig má velta því fyrir sér hvort ekki reynist gott að hafa börn með í ráðum þegar kemur að skipulagi og hönnun leikskólalóða.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
ValbjorgRosOlafsdottir_Ritgerd_kdHA.pdf | 735.36 kB | Open | Heildartexti | View/Open |