is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/18737

Titill: 
 • Framvinda og horfur í stami íslenskra leikskólabarna
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Inngangur: Stam er taltruflun sem getur haft mikil áhrif á samskipti og tjáningu einstaklinga. Helstu einkenni stams eru endurtekningar atkvæða og hljóða, lenging hljóða eða hljóðlausar festingar. Flestar rannsóknir benda til þess að 5% barna byrji að stama á einhverju skeiði máltöku og hjá um 1% þeirra verði stam þrálátt. Sum börn hætta skyndilega að stama, jafnvel án meðferðar, en hjá öðrum verður stam viðvarandi. Erfitt getur reynst að spá fyrir um framvindu í stami ungra barna. Ýmsir þættir hafa verið tengdir við bata í stami s.s. kyn barnsins, fjölskyldusaga, hversu lengi stam hefur varað og einkenni stamsins. Í þessari rannsókn var sjónum beint að einkennum stams og hvort ákveðin einkenni geti veitt upplýsingar um mögulega þróun stams. Fyrri rannsókn hafði bent til þess að þagnarbil á milli endurtekninga atkvæða séu styttri hjá þeim sem eru líklegri til að þróa með sér þrálátt stam (Yairi, Ambrose, Paden og Throneburg, 1996). Þetta einkenni í stami gæti því hugsanlega greint á milli þeirra sem hætta að stama og þeirra sem halda áfram að stama. Vísindalegt gildi þessa fyrir talmeinafræðinga er að greina betur þann hóp sem er í þörf fyrir meðferð.
  Markmið: Markmið rannsóknarinnar var að skoða framvindu stams í hópi leikskólabarna sem höfðu áður tekið þátt í rannsókn Jóhönnu T. Einarsdóttur (2009). Rannsókn Jóhönnu: Greining og mæling á stami leikskólabarna var gerð á árunum 2005 og 2006. Þátttakendur voru 38 börn sem höfðu verið metin með stam af talmeinafræðingi. Ætlunin var að komast að því hversu mörg barnanna höfðu hætt að stama og hversu mörg höfðu þróað með sér þrálátt stam. Sérstaklega voru skoðuð einkenni stamsins og þá jafnframt hvort bil á milli endurtekninga hjá þeim börnum sem hafa þróað með sér þrálátt stam væru styttri en hjá þeim sem hafa hætt að stama.
  Aðferð: Fyrirliggjandi voru myndbönd af 38 börnum sem árið 2005 sýndu einkenni stams. Sömu börn og tóku þátt árið 2005 voru kölluð inn að nýju árið 2012 og samþykktu allir þátttöku. Tekin voru upp ný myndbönd af tali þeirra. Nýju upptökurnar voru notaðar til að meta þróun stams. Þátttakendum var skipt í þrjá hópa eftir framvindu stameinkenna: 1) börn með þrálátt stam, 2) börn sem hætt voru að stama og 3) vafatilvik. Þegar skipt hafði verið í hópa valdi leiðbeinandi þrjá úr hópi þeirra sem voru með þrálátt stam og þrjá sem hættir voru að stama. Rannsakandi var blindur gagnvart þátttakendum og hafði ekki vitneskju um framvindu stams við vinnslu gagna. Bil á milli endurtekninga í myndböndum þátttakenda frá 2005 var mælt með forritinu Sony Sound Forge. Þá voru þátttakendur enn á leikskólaaldri. Rannsókn Yairi o.fl. (1996) var höfð til hliðsjónar við þetta verkefni.
  Niðurstöður: Niðurstöður sýndu að níu börn voru með þrálátt stam (24%), 22 höfðu hætt að stama (58%), en í sjö tilvikum lék vafi á framvindu stams (18%). Fleiri stúlkur en drengir höfðu hætt að stama. Við mælingar á bilum milli endurtekninga komu upp álitamál, mörg bil reyndust ómælanleg og niðurstöður voru dreifðar. Dreifigreining (ANOVA) sýndi að munur er ekki marktækur á milli hópa og því ekki hægt að álykta að munur sé á hópunum.
  Ályktanir: Gagnlegt væri að geta spáð fyrir með nokkurri vissu um mögulega framvindu í stami leikskólabarna og því eðlilegt að leitað sé aðferða til þess. Sú aðferð að mæla þagnarbil á milli endurtekninga í stami leikskólabarna virðist ekki vera til þess fallin að geta sagt til um hvort stam muni verða þrálátt eður ei. Aðferðin sjálf er auk þess tímafrek og ólíkleg til að nýtast í klínísku starfi talmeinafræðinga. Taka þarf tillit til þess að þýðið er smátt sem og úrtakið. Niðurstöður staðfesta ekki fyrri rannsókn. Gagnlegt væri að endurtaka mælingar með stærra úrtaki.

Samþykkt: 
 • 10.6.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/18737


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Hildur Edda Jónsdóttir.pdf1.51 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna