Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18793
Brian Eno á langan og farsælan feril að baki sem tónlistarmaður. Hann er líklega þekktastur fyrir störf sín sem upptökustjóri, en hefur þó einnig skapað sér glæstan feril sem tónskáld og gefið út fjölmargar breiðskífur með eigin tónlist. Allt frá því að Eno fullkomnaði þá hugmynd sína að blanda saman tónlist og umhverfi hefur hann sérhæft sig í gerð slíkrar tónlistar sem hann gaf nafnið ambient tónlist. Aðaleinkenni slíkrar tónlistar og það sem einkum skilur hana frá ýmsum öðrum tónlistarstílum er að í henni er engin grípandi laglína, ekki stöðugur taktur né heldur nokkur texti. Eftir að hafa útskrifast úr myndlistarskóla í Bretlandi þar sem hann lærði meðal annars að meðhöndla hljóð með notkun segulbandstækis jókst áhugi hans á að gerast tónlistarmaður. Stuttu seinna gekk hann til liðs við bresku rokk hljómsveitina Roxy Music og naut mikilla vinsælda á meðal aðdáenda. Eftir tvö ár sem rokktónlistarmaður ákvað hann að hætta í hljómsveitinni og einbeita sér frekar að því að semja tónlist en flytja hana. Hann hóf tónsmíðaferilinn sem rokklagahöfundur í svipuðum stíl og Roxy Music og gaf út tvær plötur í þeim dúr árið 1974. En eftir það venti hann sínu kvæði í kross og tók að skapa allt öðruvísi tónlist. Í stað ágengrar rokktónlistar leitaðist hann nú við að semja tónlist sem væri svo áreynslulaus og róleg að fólk gæti ýmist notið þess að hlusta og hverfa inn í hugarheim hennar eða leitt hana hjá sér líkt og umhverfishljóð. Með útgáfu plötunnar Ambient 1: Music for Airports árið 1978 tókst honum að fullmóta þennan tónlistarstíl og hefur hann gefið út fjöldann allan af breiðskífum í þeim anda síðan.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA ritgerð Brian Eno.pdf | 1.44 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |