Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18870
Markmið þessarar rannsóknar er að kanna viðhorf kennara og nemenda í 9. og 10. bekk grunnskóla til kennsluaðferða og námsefnis í íslenskri málfræði. Helsta tilgátan er sú að kennarar séu tvístígandi varðandi breytingar á námsefni og kennslu og nemendum þyki bæði kennslan og námsefnið leiðinlegt og jafnvel tilgangslaust. Í ritgerðinni er saga málfræðikennslu á Íslandi rakin í grófum dráttum og fjallað stuttlega um margvíslega þætti hennar. Við rannsóknina var beitt eigindlegri rannsóknaraðferð; þátttökuathugun í sex kennslustundum í málfræði, einstaklingsviðtöl við tvo íslenskukennara og myndaðir tveir rýnihópar með alls tólf nemendum. Í þeim kennslustundum sem rannsakandi sat notuðu báðir kennararnir hefðbundnar kennsluaðferðir og málfræðin var kennd sér. Nemendur eiga erfitt með að átta sig á tilganginum með málfræðikennslunni og ljóst er að fáir segja fagið skemmtilegt eða eru öruggir varðandi þekkingu sína og færni. Svo virðist sem það hvernig kennara líkar við námsefnið fari eftir því hvernig það fellur að kennslustíl viðkomandi. Nemendur hafa litlar skoðanir á kennslusefninu sjálfu og segjast miklu fremur treysta á sínar eigin glósur. Niðurstöður þessarar rannsóknar benda til þess að þróun málfræðikennslu hafi orðið mun hægari en greina má af námskrám. Báðir kennararnir kvörtuðu yfir tímaskorti og annar þeirra nefndi að ekki væri möguleiki að nota óhefðbundnar eða tímafrekar kennsluaðferðir við núverandi skilyrði. Meðal nemenda komu ekki fram hugmyndir um hvernig mögulega væri hægt að gera hlutina öðruvísi. Bentu þeir á að umræður í tímum um námsefnið hjálpuðu þeim mikið við að ná utan um það, endurtekningar væru af hinu góða og þeir töldu nauðsynlegt að hafa málfræðina skýrt afmarkaða frá öðru. Þar sem aðeins var gerð athugun í tveimur skólum, rætt við tvo kennara og tólf nemendur er ljóst að ekki er hægt að heimfæra niðurstöðurnar yfir á þýði kennara og nemenda í íslenskri málfræði. Hins vegar er það von rannsakanda að niðurstöður þessarar rannsóknar varpi einhverju ljósi á þemu sem kunna að verða áberandi í frekari rannsóknum á þessu sviði.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
B.Ed.HelgaOlof.pdf | 536,34 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |