Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/1889
Ritgerð þessi er í tveimur hlutum. Annars vegar fjalla ég um sögu fólks með þroskahömlun á Íslandi og dreg í því skyni sérstaklega fram sögu Kópavogshælis sem var lengi stærsta stofnunin hér á landi. Hins vegar skrifaði ég lífssögu Ólafs Guðmundssonar og birtist hún í seinni hluta ritgerðarinnar. Markmið sögunnar var að fá fram upplifun viðmælanda míns, Ólafs Guðmundssonar, á lífi sínu og aðstæðum og draga fram dæmi um hvernig þjónustu við fólk með þroskahömlun hefur verið háttað á Íslandi frá miðri 20. öld.
Ég hóf þessa vinnu fyrir nokkrum árum og hef annars vegar byggt á verkefni sem unnið var vorið 2005 í námskeiði í eigindlegri aðferðarfræði og hins vegar á verkefni í fötlunarfræði sem var unnið árið á undan. Í upphafi var ætlunin að beina fyrst og fremst athyglinni að lífssögu Ólafs. Eftir að hafa rýnt í sögu Kópavoghælis og lesið um lífssögurannsóknir tók ég þá ákvörðun að fjalla bæði um opinbera sögu hér á landi og út frá henni skoða lífssögu Ólafs.
Niðurstöður gefa til kynna að líf Ólafs hefur mótast af þeim valkostum sem honum stóðu til boða á hverjum tíma. Lög fram til ársins 1979 gerðu einungis ráð fyrir stofnabundinni þjónustu. Ný hugmyndafræði, sem kennd hefur verið við eðlilegt líf og samfélagsþátttöku, fór að ryðja sér til rúms á 6. áratug síðustu aldar. Hagsmunasamtök fóru þá að berjast fyrir breytingum á viðhorfum og þjónustu fyrir fólk með fötlun. Þrátt fyrir að svo hafi verið lítur út fyrir að framkvæmdin á þjónustunni hafi verið töluvert á eftir hugmyndafræðinni. Ólafur hefur til dæmis búið inni á mismunandi stofnunum stóran hluta af lífi sínu.
Núgildandi lög eiga að tryggja fólki með fötlun, fulla þátttöku í samfélaginu, jafnrétti og sambærileg lífskjör á við aðra þjóðfélagsþegna. Lífssaga Ólafs sýnir að hann hefur ekki haft tækifæri til fullrar þátttöku í samfélaginu. Lífskjör hans hafa færst í átt að jafnrétti og sambærilegra lífskjara en hann hefur lifað lífi sínu innan þeirra takmarkana sem samfélagið hefur sett fólki í hans stöðu.
Lykilorð: Sólarhringsstofnun, fólk með þroskahömlun, lífssaga.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Líf í ljós sögu sólarhringsstofnunar Lífssaga Ólafs Guðmundssonar.pdf | 487.71 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |