is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara) Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/1895

Titill: 
 • Tölvunotkun og -færni eldra fólks
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Í ritgerðinni er fjallað um tölvufærni eldra fólks og ljósi varpað á fjölda þátta sem gefa vísbendingar um hve nauðsynleg þessi færni er fyrir eldra fólk. Einnig er fjallað um rannsókn á því hvernig eldri einstaklingar læra á tölvu. Miklar breytingar hafa átt sér stað í kjölfar tækninýjunga á seinni hluta 20. aldar og byrjun þessarar. Mannfjöldaspár gera ráð fyrir fjölgun í hópi aldraðra og búast má við að fólk lifi lengur og við betri heilsu. Eldra fólk er hópur sem hefur orðið á eftir í nýtingu tækninnar. Því er mikilvægt að skoða hvernig eldra fólk lærir á tölvur.
  Þátttaka í símenntun minnkar eftir því sem aldurinn færist yfir. Skýringa á þessu er leitað í rannsóknum og kenningum. Hvað hvetur eldra fólk til náms og hvaða hindranir verða á veginum?
  Rannsóknin er eigindleg og byggist á vettvangsathugunum á tölvunámskeiði fyrir byrjendur annars vegar og í opnum tölvutíma í þjónustumiðstöð fyrir aldraða hins vegar, og á viðtali við sálfræðing sem sér um tölvuaðstoð í þjónustumiðstöðinni. Þátttakendur á tölvunámskeiði voru 10, sjö konur og þrír karlar. Af þessum 10 þátttakendum voru fjórir á sjötugs- og áttræðisaldri, hinir sex á fimmtugs og sextugsaldri. Í þjónustumiðstöð fyrir aldraða voru átta manns, sex konur og tveir karlar. Allir um og yfir sjötugu.
  Fram kom í rannsókninni að helsti hvatinn til að nota tölvu er fjölskyldan, börnin og barnabörnin. Eldra fólk vill geta lesið og sent tölvupóst og skoðað myndir af afkomendum. Viðhorf til tölva og þeirra möguleika sem Netið býður uppá voru mjög jákvæð og fram kom að eftirsóknarvert er að kunna á tölvu. Ýmislegt hindrar eða hefur neikvæð áhrif á námið. Margt eldra fólk hefur litla forþekkingu til að byggja tölvunámið á og það reynir á fjölda færniþátta. Grófar fínhreyfingar og slæm sjón geta hamlað námi og valdið því að hlutirnir ganga hægar fyrir sig og margir kvarta yfir slæmu minni. Eldra fólkið í rannsókninni var mjög jákvætt og þakklátt fyrir kennsluna hvort sem var í þjónustumiðstöðinni eða á tölvunámskeiðinu.
  Jákvæð viðhorf þess hóps sem hér var rannsakaður leiðir líkum að því að fjöldi eldra fólks hefði áhuga og vilja til að læra á tölvur. Til þess að eldra fólk upplifi tölvunámið sem jákvæða reynslu þurfa aðstæður að vera við hæfi. Rannsóknin gefur vísbendingar um að næg aðstoð, stuðningur og samvera með jafningjum skapi aðstæður sem draga úr pirringi og svekkelsi sem oft einkenna fyrstu stig tölvunáms.
  Tölvur og Net gera fólki kleift að vera í samskiptum við ættingja og vini, sinna áhugamálum og fylgjast með því sem er að gerast í samfélaginu. Það er mikilvægt fyrir opinbera aðila sem stjórna málefnum aldraðra að gera sér grein fyrir hvaða þátt úrræði eins og að kenna fólki að nota tölvu getur átt í að viðhalda góðum félagslegum tengslum og koma í veg fyrir þunglyndi og einmanaleika. Fræðslustarf meðal aldraðra er fyrirbyggjandi úrræði sem getur leitt til sjálfshjálpar og bætt lífsgæði.
  Lykilorð: Tölvunotkun eldra fólks, tölvufærni eldra fólks, nám eldra fólks, rannsókn á tölvunámi.

Athugasemdir: 
 • M.Ed. í uppeldis- og menntunarfræði
Samþykkt: 
 • 15.9.2008
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/1895


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
kristinrunolfsdottir_meistaraprofsverkefni08.pdf474.75 kBOpinnHeildartexti PDFSkoða/Opna