Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/18984
Ritgerðin byggir á lokaverkefni mínu til BA-prófs í uppeldis- og menntunarfræðum við Háskóla Íslands. Verkefnið er rannsóknarritgerð sem er byggð á fræðilegum heimildum. Leitast er við að svara spurningunni: Hvað einkennir lestrarnám tvítyngdra barna? Góð tungumálafærni er mikilvæg forsenda velgengni í námi en hún verður best þróuð í gegnum lestur. Góður lesskilningur er jafnframt lykill að farsælu námsgengi. Mikilvægt er að tvítyngd börn geti lesið á móðurmáli sínu. Þannig geta þau best þróað færni sína í málinu og byggt grunn fyrir frekara tungumálanám. Forsenda þess að ganga vel í námi er enn fremur að hafa góð tök á skólamálinu, en þar gegnir lestur lykilhlutverki. Undirstöðuþættir lestrar eru hljóðkerfisvitund, umskráning og málskilningur. Kunnátta í tveimur tungumálum getur eflt hljóðkerfisvitund tvítyngdra barna. Þróun umskráningar fer hins vegar eftir ritkerfi hvors tungumáls, hvort það er flókið eða einfalt. Yfirleitt gengur ein- og tvítyngdum börnum jafn vel að ná tökum á lestri í sama tungumáli. Tvítyngd börn hafa hins vegar oft lakari orðaforða í hvoru tungumáli en eintyngd börn í sínu eina tungumáli. Því er mikilvægt að auka orðaforða tvítyngdra barna, þar sem góður orðaforði er undirstaða lesskilnings. Skortur á orðaforða virðist vera meginástæða þess að tvítyngdum nemendum hættir til að hafa lélegri lesskilning en þeir eintyngdu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Harpa Hrönn Gísladóttir - Lokaskjal2.pdf | 683,76 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |