Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/19587
Auður Haralds hefur gefið út fjórar skáldsögur þar sem jafnrétti kynjanna og samskipti eru á dagskrá. Aðeins tvær þessara bóka eru til skoðunar hér; Hlustið þér á Mozart? og Ung, há, feig og ljóshærð. Í báðum bókunum gegna ástarsögur mikilvægu hlutverki og því verður femínískt viðhorf í bókunum greint samhliða kenningum um ástarsögur. Taka skal fram að greining á femínískum viðhorfum sem birtast í bókunum tveimur tengjast ekki Auði sjálfri í dag heldur er átt við viðhorf söguhöfundarins og þeirrar sviðsetningar sem Auður valdi sér í viðtölum fyrir rúmlega þrjátíu árum. Helstu bækurnar sem stuðst er við í ritgerðinni eru Reading the romance eftir Janice A. Radway, Loving with a vengeance eftir Töniu Modleski og Dangerous men and adventurous women sem ritstýrt var af Jayne Ann Krentz.
Auður Haralds gefur mynd af sér sem mjög opinni manneskju sem er óhrædd við að tjá skoðanir sínar þegar skoðuð eru viðtöl við hana í tilefni af fyrstu bók hennar. En þegar kafað er dýpra í þessa sviðsetningu kemur í ljós undirliggjandi óöruggi og misræmi. Auður notar mikið íróníu í bókum sínum sem gerir þær skemmtilegar aflestrar en stundum vinnur grínið gegn verkunum. Svo virðist sem Auður sé bara að gera grín að ástarsögum í Hlustið þér á Mozart? og Ung, há, feig og ljóshærð en sú er ekki raunin. Hún deilir þar á misrétti milli kynjanna en ef til vill átta sig ekki allir á þeim skilaboðum vegna íróníunnar og kemur það glöggt í ljós í viðtökum bókanna. Segja má að húmorinn sé notaður sem skjöldur þannig að lesendur og gagnrýnendur áttuðu sig ekki á raunverulegu skilaboðum hennar. Það getur enginn gagnrýnt verkin eða komið höggi á höfundinn því að hann er alltaf að grínast. Þessi aðferð getur margfaldað merkingu verks eða einfaldað það og hér verður skoðað hvort á sér stað í verkunum sem eru til umræðu.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð lokaskil.pdf | 365,89 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |