is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/19609

Titill: 
  • Skilyrði reglunnar um brostnar forsendur í samningarétti
Námsstig: 
  • Meistara
Leiðbeinandi: 
Útdráttur: 
  • Til grundvallar sérhverjum löggerningi liggja jafnan vissar hvatir eða ástæður löggerningsgjafa sem leiða til þess að hann stofnar til löggerningsins, hvort sem þær eru honum meðvitaðar eða ómeðvitaðar. Hann gerir sér tilteknar hugmyndir, annaðhvort um þau atvik sem eru fyrir hendi við löggerningsgerðina eða hvernig muni verða ástatt í framtíðinni. Stundum eru þær löggerningsgjafa svo mikilvægar að hann tekur fram við löggerningsgerðina að hann vilji einungis vera bundinn ef þær hugmyndir eða vonir sem hann hefur gert sér um tiltekin atvik reynist réttar eða komi fram, þ.e. hann gerir þær að skilyrði. Oft eru ástæður löggerningsgjafa ekki teknar þannig inn í löggerninginn og gerðar að skilyrði, heldur er löggerningurinn gerður án þess að minnst sé á að gildi hans skuli háð þeim. Þær ástæður eða hvatir til löggerningsgerðar sem ekki eru gerðar að skilyrði eru nefndar forsendur.
    Þegar til gilds löggernings hefur stofnast en atvik eða aðstæður breytast eða þróast með öðrum hætti en löggerningsgjafi ætlaði, þannig að forsendur hans bresta áður en til efnda kemur, getur löggerningsgjafi haft mikinn hag af því að vera laus undan skyldum sínum samkvæmt löggerningnum. Í norrænum rétti hefur löngum verið viðurkennt að brostnar forsendur geti að tilteknum skilyrðum uppfylltum valdið því að löggerningsgjafi losni undan skyldum sínum samkvæmt löggerningnum í heild eða að hluta – löggerningurinn verði ógildur af þessum sökum – og losnar löggerningsmóttakandi þá einnig undan skyldum sínum.
    Reglan um brostnar forsendur hefur lengi verið deiluefni norrænna fræðimanna í fjármunarétti. Skiptar skoðanir hafa verið um ýmis grundvallarrök í þessum efnum, m.a. um tilvist og tilverurétt reglunnar, og jafnframt hvaða kröfur eigi að gera til þess að forsendubrestur hafi áhrif á efndaskyldu aðila. Í fræðikenningum og réttarframkvæmd hefur almennt verið litið svo á að þremur skilyrðum þurfi að vera fullnægt til þess að reglan geti átt við. Í fyrsta lagi hefur verið talið að viðkomandi forsenda þurfi að hafa verið veruleg fyrir löggerningsgjafa en í því felst að hún hafi verið ákvörðunarástæða hans. Í öðru lagi hefur verið talið að löggerningsmóttakandi þurfi almennt að hafa vitað eða mátt vita um forsenduna og gert sér ljóst að forsendan réði því að löggerningsgjafi undirgekkst þá skuldbindingu sem í löggerningnum felst. Í þriðja lagi hefur verið áskilið að forsendan geti haft þýðingu fyrir viðkomandi löggerning, þ.e. sé mikilvæg, en hún telst mikilvæg ef það telst eðlilegt og sanngjarnt hlutlægt séð að leggja áhættuna af því að forsendan brestur á löggerningsmóttakanda.
    Markmið ritgerðarinnar er að gera ítarlega grein fyrir inntaki skilyrða þess að brostnar forsendur hafi áhrif á efndaskyldu aðila í íslenskum rétti, í ljósi forsögu þeirra og dómaframkvæmdar. Með það fyrir augum er leitað svara við eftirfarandi spurningum: (1) Hvert er inntak hugtaksins brostnar forsendur? (2) Hvernig afmarkast gildissvið reglunnar um brostnar forsendur gagnvart öðrum réttarreglum og meginreglum, til að mynda ógildingarreglum samningalaga og reglum kröfuréttar? (3) Hvert er inntak hinna hefðbundnu skilyrða reglunnar og (4) hvaða atriði koma til skoðunar við mat á því hvort það sé réttlátt og sanngjarnt að löggerningsmóttakandi beri áhættuna af því að forsenda bresti? Í ritgerðinni er bæði leitast við að gera grein fyrir fræðilegum grundvelli reglunnar og að bregða ljósi á beitingu hennar í framkvæmd. Íslenskur réttur er hafður í forgrunni en þar sem réttareining er víðtæk milli Norðurlandanna, einkum á sviði samningaréttar, og umræðan um helstu álitamál í þessum efnum að mestum hluta sameiginleg, er einnig leitað fanga í norrænum fræðikenningum og dómaframkvæmd.
    Ritgerðin er þannig uppbyggð að í kafla 2 er fjallað um uppruna og sögulega þróun kenninga um áhrif breyttra aðstæðna á skuldbindingargildi löggerninga til að varpa ljósi á þá hugmyndafræði sem býr að baki reglunni um brostnar forsendur eins og hún er í dag. Einnig er gerð grein fyrir helstu kenningum norrænna fræðimanna í þessum efnum, einkum þeirra sem hafa viðurkennt tilvist reglunnar, um hvaða skilyrði þurfi að vera uppfyllt til að brostnar forsendur hafi áhrif á gildi löggernings, og jafnframt upphafi reglunnar í íslenskum rétti. Í kafla 3 er gerð grein fyrir hugtakinu brostnum forsendum og annarri hugtakanotkun sem hefur grundvallarþýðingu fyrir innihald og umfang reglunnar almennt. Jafnframt er gildissvið reglunnar afmarkað en í því sambandi er m.a. fjallað um aðgreiningu reglunnar frá ógildingarreglum samningalaga og reglum kröfuréttar. Í kafla 4 er sjónum beint að skilyrðunum þremur sem almennt er talið að þurfi að vera uppfyllt til að forsendubrestur hafi áhrif á efndaskyldu aðila og ítarleg grein gerð fyrir inntaki þeirra. Í því sambandi er gerð grein fyrir ólíkum birtingarmyndum skilyrðanna í helstu fræðikenningum liðinnar aldar og leitast við að greina hvernig skilyrðunum er beitt í dómaframkvæmd. Að lokum eru niðurstöður ritgerðarinnar dregnar saman í kafla 5.

Samþykkt: 
  • 9.9.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/19609


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
AKS_lokaeintak.pdf1.52 MBLokaður til...08.09.2134MeginmálPDF
AKS_forsida.pdf155.16 kBLokaður til...08.09.2134ForsíðaPDF