is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Hugvísindasvið > B.A. verkefni - Hugvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/19719

Titill: 
  • Málfundafélagið Óðinn. Stofnun, blómaskeið og hnignun
Námsstig: 
  • Bakkalár
Útdráttur: 
  • Málfundafélagið Óðinn var stofnað árið 1938 af verkamönnum, sem fylgdu Sjálfstæðisflokknum að málum, um svipað leyti og fyrsta vinnulöggjöfin var samþykkt á Alþingi. Tilgangur með stofnun félagsins var einkum sá að aflétta einokun Alþýðuflokks á Alþýðusambandinu og að hafa áhrif á framgang verkalýðsmála innan verkalýðsfélaganna. Óðinsmenn lögðu áherslu á kröfuna um fulla atvinnu og verulegar úrbætur í húsnæðismálum. Á þeim sviðum vildu þeir ganga skrefi lengra í félagslega átt en forysta Sjálfstæðisflokksins. Slagorðið ,,Stétt með stétt“ var gjarnan notað til að skýra stefnu félagsins og Hannes Jónsson sjálfstæðisverkamaður taldi að þau orð skildu verkamenn og sjómenn á Íslandi á þann veg, að þeir nytu aukinna hlunninda þegar vel áraði, en öxluðu auknar byrðar þegar ver gengi. Sú túlkun samræmdist vel þjóðernishugmyndum Jóns J. Aðils um þjóðfélagið sem lífræna heild. Innra starf félagsins var blómlegt og kraftmikið fyrstu árin eftir stofnun þess. Óðinsmenn komu víða við og voru óhræddir við að viðra skoðanir sínar um hin margvíslegustu málefni. Árið 1942 fóru félagsmenn í síauknum mæli að kvarta undan ónógum stuðningi frá flokknum við það sem þeir töldu vera nauðsynleg réttlætismál og með tímanum dró úr innra starfi félagsins. Árið 1948 hóf miðstjórn Sjálfstæðisflokksins endurskipulagningu verkalýðsstarfs hans og um leið nýja sókn inn í verkalýðsfélögin. Þeirri endurskipulagningu lauk árið 1951 með stofnun Verkalýðsráðs Sjálfstæðisflokksins. Á þeirri vegferð glataði Málfundafélagið Óðinn forystuhlutverki sínu. Eftir það hefur Óðinn starfað í svipuðum anda og önnur flokksfélög sjálfstæðismanna.
    Heildarmat á starfsemi Málfundafélagsins Óðins er, að það hafi gegnt mikilvægu hlutverki í sókn Sjálfstæðisflokksins innan verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega á árunum milli 1938 og 1942. Auk þess telur höfundur þessarar ritgerðar, að barátta félagsins fyrir úrbótum í húsnæðismálum reykvískrar alþýðu hafi skilað verulegum árangri.

Samþykkt: 
  • 11.9.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/19719


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Sturla Skagfjörð Frostason.pdf491.85 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna