is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/19758

Titill: 
  • Orðspor og trúverðugleiki fréttamiðla: Rannsókn á þremur vinsælustu fréttamiðlum landsins
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Fjölmiðlar hafa mikil áhrif í þjóðfélaginu. Þeir veita upplýsingar um það sem er að gerast innanlands og erlendis, hvort sem það er á sviði stjórnmála, viðskipta, vísinda, íþrótta eða einhvers annars. Upplýsingarnar móta skoðanir fólks og geta haft áhrif á þær ákvarðanir sem það tekur. Hlutverk fjölmiðla er því gríðarlega þýðingarmikið. Það er þó ekki á færi allra að valda þessu hlutverki. Þyki fólki ákveðnir fjölmiðlar ekki búa yfir trúverðugleika og góðu orðspori þá veitir það þeim ekki athygli. Þeir miðlar verða sjaldan langlífir.
    Eina yngstu gerð fjölmiðla en jafnframt þá vinsælustu er að finna á netinu; fréttamiðla. Tilgangur rannsóknarinnar var að kanna trúverðugleika og orðspor þriggja stærstu fréttamiðla landsins, mbl.is, visir.is, og dv.is, sem svo margir reiða sig á þegar kemur að því að afla upplýsinga en svo virðist sem efnið hafi lítið verið rannsakað hér á landi.
    Framkvæmd var megindleg rannsókn, hönnuð að erlendri fyrirmynd. Spurningalisti var sendur á nemendur Háskóla Íslands vorið 2014 auk þess sem listanum var deilt á Facebook um sumarið. Alls bárust 282 nothæf svör.
    Helstu niðurstöður rannsóknarinnar voru þær að mbl.is og visir.is voru með besta orðsporið og mesta trúverðugleikann. Ekki var munur á afstöðu fólks eftir kynjum. Yngsta aldurshópnum þótti mbl.is og visir.is vera með betra orðspor og meiri trúverðugleika heldur en þeim sem eldri voru. Þá þótti þeim sem styðja Sjálfstæðisflokkinn mbl.is vera með betra orðspor og meiri trúverðugleika heldur en þeim sem styðja flokka sem teljast til vinstri.
    Þótt mbl.is og visir.is hafi reynst vera með besta orðsporið og mesta trúverðugleikann er ekki þar með sagt að orðspor þeirra sé gott og trúverðugleikinn mikill. Afstaða fólks til orðspors og trúverðugleika fréttamiðlanna þriggja reyndist vera nokkuð hlutlaus, þ.e. hvorki sérstaklega jákvætt eða neikvætt orðspor né heldur þóttu þeir sérlega trúverðugir eða ótrúverðugir. Hlýtur það að teljast áhyggjuefni miðað við það mikilvæga hlutverk sem þeir gegna. Það ætti að vera markmið miðlanna að vinna statt og stöðugt að því að bæta sig í þessum efnum því trúverðugleiki er ein helsta undirstaða fjölmiðla og gott orðspor er forsenda þess að trúverðugleiki geti myndast.
    Er það von höfundar að niðurstöðurnar hvetji blaðamenn og fréttastjóra mbl.is, visir.is og dv.is til dáða og vinna markvisst að því að reyna að bæta orðspor og trúverðugleika miðlanna.

Samþykkt: 
  • 16.9.2014
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/19758


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ylfa Kristín K. Árnadóttir meistararitgerð.pdf815.62 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna