Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/19880
Í ritgerð þessari verður fjallað um hvert sjónarhorn kvenna er til förðunar, hvers vegna þær mála sig og hvaða hlutverki andlitsfarði þjónar í lífi þeirra. Til að rannsaka þetta var útbúin eigindleg spurningaskrá í anda spurningaskráa Þjóðháttasafns Þjóðminjasafns Íslands sem send var út á Internetinu. Alls svöruðu 178 konur og þau svör sem bárust voru svo greind með hugtökum og kenningum fræðimanna um grímur og hegðun og framkomu fólks í samskiptum við aðra. Helst er þó stuðst við kenningar kanadíska félagsfræðingsins Erving Goffman úr leikhúsheiminum sem yfirfærðar eru á daglegt líf og samskipti fólks. Einnig er stuðst við fræðilegar greinar sem fjalla um förðun, útlit og mikilvægi þess í nútímasamfélagi.
Niðurstöður rannsóknarinnar eru að konur mála sig til að auka sjálfstraust sitt og andlitsförðunin veitir þeim vörn í aðstæðum þar sem þær væru annars óöruggar með sig. Oftast nær kjósa konur að líta náttúrulega út en ná því markmiði þó með aðstoð förðunarvara sem eru gerviefni og þar myndast því áhugaverð þverstæða. Á kvöldin og þegar farið er í veislur eða út á lífið mála konur sig meira og með dekkri litum. Mjög strangar óskrifaðar reglur eru um hversu mikið má mála sig í hverjum aðstæðum. Ekki er leyfilegt að mála sig mikið fyrir líkamsræktina eða skólann, en þegar farið er út á lífið leyfist konum að mála sig meira og jafnvel er ætlast til þess. Konur mála sig einnig til að ganga í augun á vænlegum maka, en það kemur ekki á óvart þar sem útlit er eitt það fyrsta sem fólk tekur eftir í fari hjá öðrum. Farðinn gegnir því veigamiklu hlutverki hjá konum í samskiptum við annað fólk, hvort sem það er í vinnunni, skólanum, heima, á djamminu eða hvar sem er.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BA-ritgerð Elísa Björt Guðjónsdóttir.pdf | 478,16 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |