Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/19896
Mikil uppstokkun hefur átt sér stað á hinum íslenska fjármálamarkaði eftir fall hinna þriggja stóru viðskiptabanka Íslands síðla árs 2008. Fjármálakerfið í heild sinni hefur þurft að byggja upp traust landsmanna að nýju og eftirlitsstofnanir hafa verið styrktar. Hvar við stöndum í dag og hvert við viljum halda er lykilatriði í þessu sambandi. Hinir ýmsu fræðimenn benda á það í skrifum sínum um fjármálastofnanir að megináhersla regluverksins eigi að vera á eigið fé, lausafjárstöðu og vanskil útlána. Ennfremur vilja þeir stífari reglur varðandi arðgreiðslur og bónusgreiðslur þeirra. Endurbætur hafa verið gerðar á Basel-regluverkinu og breytingar á alþjóðalögum sem og landslögum og reglugerðum. Enn er þó langt í land og ýmis ljón á veginum, t.d. afnám haftanna og óvissa í gjaldeyrismálum. Þar að auki eru enn veruleg vanskil útlána, tregða ýmissa áhrifamanna við breytingar á regluverkinu og síðast en ekki síst hefur starfsemi skuggabanka aukist á kostnað eftirlitsskyldra fjármálastofnana.
Markmið ritgerðarinnar er ekki að reyna að sanna eða afsanna ákveðnar tilgátur heldur að skoða stöðu bankanna þriggja í dag með tilliti til fjármögnunar þeirra og bera hana saman við stöðuna fyrir bankahrunið 2008. Skoða breytingar á regluverkinu bæði því innlenda og erlenda og fjalla sérstaklega um eiginfjármögnun, þá áhættu sem bankakerfið á við að etja og þær afleiðingar sem hún getur haft fyrir hina þrjá stóru íslensku viðskiptabanka, Arionbanka, Íslandsbanka og Landsbanka. Einnig verður leitast við að kanna hvað innlendir og erlendir sérfræðingar hafa skrifað um fjármögnun svo og valdir erlendir bankar skoðaðir til samanburðar við þá íslensku.
Almennt telja menn að setja þurfi enn frekari skorður á bónus- og arðgreiðslur og herða eiginfjárreglur enn frekar og það frekar fyrr en síðar. En helstu niðurstöður eru þær að auknar kröfur eftirlitsaðila varðandi eigið fé og lausafé setja íslensku bönkunum miklar skorður, þeir þurfa eins og áður að fjármagna langtímaútlán með skammtímainnlánum, þeir þurfa að eiga stóra lausafjársjóði og auka eigið fé umtalsvert vegna áhættu á markaðnum. Augljóst er að það er að mörgu að hyggja vegna framtíðaruppbyggingar sjálfbærs fjármálakerfis á Íslandi.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MS ritgerð_Hrafnhildur Skúladóttir.pdf | 1.21 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |