is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskólinn á Akureyri > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/199

Titill: 
 • Ígrundun : notkun ígrundunar í hjúkrun
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Þessi rannsókn var gerð í þeim tilgangi að kanna hvernig hjúkrunarfræðingar nota ígrundun (reflection) við störf sín. Áhersla var lögð á að skoða notkun hjúkrunarfræðings á ígrundun við störf sín og hvernig hún hefur nýst honum við það að þroskast og verða víðsýnni og betri fagmaður.
  Aðferðafræðin sem notuð er við gerð rannsóknarinnar er eigindleg rannsóknaraðferð sem kallast Vancouver skólinn í fyrirbærafræði sem byggir á þeim skilningi að einstaklingurinn sjái heiminn með sínum augum sem mótast hefur af fyrri reynslu hans og hans eigin túlkun á þeirri reynslu. Í þessari rannsókn var meðrannsakandi einn hjúkrunarfræðingur sem valinn var með tilgang rannsóknarinnar í huga og þurfti hann að uppfylla þau skilyrði að hafa að minnsta kosti sex ára starfsreynslu og vera starfandi á sjúkradeild á sjúkrahúsi. Nauðsynlegt var að hann væri tilbúinn að deila reynslu sinni á opinn og einlægan hátt. Tekin voru tvö viðtöl við meðrannsakanda.
  Niðurstöðum rannsóknarinnar og umfjöllun um þær er skipt niður í sex þætti:
  1) Reynsla: Meðrannsakandi lýsti ákveðinni reynslu sem var erfið, en varð að hans sögn til þess að það varð vendipunktur í starfi hans og þroska. 2) Tilfinningar: Þessi atburður gerðist á þeim tíma þar sem það tíðkaðist ekki að ræða tilfinningar sínar opinskátt en meðrannsakandi upplifði vanlíðan í kjölfar atburðarins.
  3) Úrvinnsla tilfinninga og bjargráð: Meðrannsakandi talaði um að hann hefði ekki sjálfur leitað eftir aðstoð heldur hefði aðstoðin komið til hans og sú aðstoð varð til þess að hann áttaði sig betur á mikilvægi þess að leita sér aðstoðar og viðurkenna tilfinningar sínar. 4) Að fá hrós og mat á frammistöðu (feedback): Meðrannsakandi talaði um hvað honum fannst það vera nauðsynlegt að við hrósuðum hvert öðru, en sagði að það gleymdist oft í dagsins önn og það væri miður. 5) Að halda ró sinni við erfiðar aðstæður: Meðrannsakandi talaði um nauðsyn þess að halda ró sinni og sína æðruleysi en sagði að þessir nauðsynlegu hæfileikar hjúkrunarfræðinga kæmu með tímanum og að það væri eðlilegt að byrjendur í hjúkrun upplifðu kvíða og spennu við erfiðar aðstæður. 6) Notkun markvissrar ígrundunar: Meðrannsakandi sagði að ekki væri stunduð markviss ígrundun á þeirri deild sem hann vinnur á. Það hefði einu sinni verið reynt en það gekk ekki af einhverjum orsökum. Meðrannsakandi talaði um, að í dag væri verið að ræða það á meðal starfsfólks á deildinni, að koma upp einhverju í þá veruna þar sem mikið álag hefði verið á starfsfólki undanfarnar vikur og mánuði.
  Niðurstöður leiddu í ljós að meðrannsakandi lagði áherslu á nauðsyn þess að hjúkrunarfræðingar ígrundi störf sín og sagði að í huga sínum léki enginn vafi á því að ígrundun hefði hjálpað honum við að þróa sinn faglega þroska og vildi hann meina að hjúkrunarfræðingar almennt þyrftu að leita meira eftir hjálp við erfiðar aðstæður á vinnustað. “Það vill því miður oft gleymast að leita eftir hjálp” sagði hann.
  Það er von rannsakanda að þessar niðurstöður geti orðið til þess að vekja upp umræður á meðal hjúkrunarfæðinga og ekki síst hjúkrunarfræðinema um mikilvægi þess að ígrunda á störf sín og annarra og spyrja: “hvernig get ég gert betur gagnvart sjálfum mér og öðrum”?

Samþykkt: 
 • 1.1.2004
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/199


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
notigru.pdf436.19 kBOpinnÍgrundun - heild PDFSkoða/Opna