is Íslenska en English

Lokaverkefni (Bakkalár)

Háskóli Íslands > Heilbrigðisvísindasvið > B.S. verkefni - Heilbrigðisvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/19920

Titill: 
 • Ávísanavenjur lækna á sýklalyf
Námsstig: 
 • Bakkalár
Útdráttur: 
 • Inngangur: Röng sýklalyfjanotkun er einn helsti orsakaþáttur í þróun sýklalyfjaónæmis meðal algengra sýkingarvalda. Sýklalyfjanotkun, og þá sérstaklega notkun breiðvirkra sýklalyfja, hefur löngum verið meiri hér á landi samanborið við hin Norðurlöndin. Árin 1991 og 1995 voru gerðar kannanir á vegum Landlæknisembættisins um ávísanavenjur lækna á sýklalyf. Úrvinnsla á niðurstöðum þeirra var gerð samhliða rannsókninni. Markmið rannsóknarinnar var að kanna ávísanavenjur lækna starfandi á Íslandi 2014 ásamt því að kanna hvort þær hafi breyst sl. tvo áratugi.
  Efniviður og aðferðir: Rannsóknin var lýsandi þversniðsrannsókn og samanstóð þýðið af öllum heimilis- og heilsugæslulæknum starfandi á Íslandi árin 1991 og 1995 ásamt öllum starfandi læknum á Íslandi í mars 2014. Upplýsingum var safnað með spurningalistum en kannaður var fjöldi sýklalyfjaávísana ásamt greiningu og meðferð við einfaldri þvagfærasýkingu, bráðri miðeyrnabólgu og hálsbólgu. Einnig var spurt um bakgrunnsþætti. Notast var við fjölþátta lógistíska aðhvarfsgreiningu og marktæknismörk voru p≤0.05.
  Niðurstöður: Svarhlutfall var 85% og 93% í könnunum 1991 og 1995 hvort árið um sig en 31% í könnun 2014. Könnuð var fylgni við að ávísa sýklalyfjum oftar en 10x að jafnaði á viku en ekki fékkst marktækur munur milli lækna sem svöruðu könnun 1991 og lækna sem svöruðu könnun 2014 (p=0.052). Algengi co-trimoxazole sem fyrsta lyf við einfaldri þvagfærasýkingu fór úr 43% og 45% í fyrri könnunum í 8% í könnun 2014. Þegar skoðuð var meðferð við bráðri miðeyrnabólgu kom í ljós að læknar sem svöruðu könnun 2014 voru 87% ólíklegri en læknar sem svöruðu könnun 1991 til þess að setja barn alltaf á sýklalyf. Amoxicillín/klavúlansýra sem fyrsta lyf við miðeyrnabólgu var hins vegar algengara (líkindahlutfall=14.72) í könnun 2014 en í könnun 1991 (líkindahlutfall=1.00) og var sá munur marktækur. Í tilfellum hálsbólgu voru læknar sem svöruðu könnun 2014 tæplega fimm sinnum líklegri til þess að taka alltaf ræktunarsýni eða hraðgreiningarpróf en læknar sem svöruðu könnun 1991.
  Ályktanir: Ljóst er að talsverðar breytingar hafa orðið á ávísanavenjum lækna sl. tvo áratugi. Þær breytingar eru að mestu í samræmi við klínískar leiðbeiningar sem birtar voru á vegum Landlæknisembættisins á árunum 2007-2009 um greiningu og meðferð þvagfærasýkinga, bráðrar miðeyrnabólgu og hálsbólgu. Lengi má þó gott bæta og er ýmsu ábótavant hvað varðar ávísanavenjur lækna á sýklalyf. Því er mikilvægt að heilbrigðisyfirvöld beiti sér áfram fyrir bættri notkun sýklalyfja með það að markmiði að draga úr þróun sýklalyfjaónæmis hér á landi.

Samþykkt: 
 • 16.10.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/19920


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ávísanavenjur lækna á sýklalyf.pdf1.5 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna