Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/19932
„Þúsund hlutir á engum tíma“ er rannsóknarverkefni til MA-gráðu í menningarstjórnun við Háskólann á Bifröst.
Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á aðstæður skólastjóra þegar hann tekur stjórnvaldsákvörðun um brottvísun nemanda og þannig auka almenna þekkingu og skilning á því og ef til vill stuðla að breytingum ef niðurstaðan er sú að þeirra sé þörf. Markmið rannsóknarinnar var að kanna gildandi ákvæði laga um brottvikningu og leita að hugsanlegum vandkvæðum sem geta fylgt því að framfylgja samtímis ákvæðum mismunandi laga – sérstaklega hvað varðar að gæta andmælaréttar samkvæmt stjórnsýslulögum annarsvegar og að gæta öryggis nemenda samkvæmt grunnskólalögum, lögum um barnavernd og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna hinsvegar. Rannsóknarspurningar verkefnisins voru tvær. Í fyrsta lagi: Hvaða ákvæði gilda í lögum um brottvísun nemenda úr grunnskóla? Í öðru lagi: Hvernig geta skólastjórar sem taka ákvörðun um brottvísun grunnskólanemenda tryggt andmælarétt samkvæmt lögum og jafnframt haft nægilegt svigrúm til að finna viðeigandi úrræði þannig að öryggi annarra nemenda sé tryggt? Til þess að svara spurningunum var annarsvegnar unnið með lögskýringar, texta og skjalagreiningu þar sem greind voru lög og reglugerðir sem snerta efnið. Úrskurðir menntamálaráðuneytisins í brottvísunarmálum grunnskólanemenda voru einnig skoðaðir sérstaklega. Hinsvegar var notuð narratífa sem rannsóknaraðferð þar sem tekin voru viðtöl við skólastjóra.
Helstu niðurstöður voru þær að það geta skapast aðstæður í brottvísunarmálum þar sem skólastjórar geta ekki á tryggt aðilum máls rétt á andmælum samkvæmt stjórnsýslulögum (nr. 37/1993) og jafnframt gætt öryggis annarra nemenda skólans líkt og kveðið er á um í lögum um grunnskóla (nr. 90/2011), barnaverndarlögum (nr. 80/2002) og barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. Einnig að það ríkir óvissa um hvernig skólastjórar eigi að bregðast við þegar slíkar aðstæður skapast.
Lykilhugtök: Brottvísun grunnskólanemenda, andmælaréttur, stjórnsýslulög, skólastjóri, öryggi nemenda.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Anna_Greta_Olafsdottir_MA.pdf | 501.46 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |