Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/19952
Nútíma hestamennsku fylgja miklir flutningar á hestum. Rannsóknir hafa sýnt að ýmsir þættirí flutningi geta verið streituvaldandi fyrir hesta. Hingað til hafa áhrif dempunar hávaðaáreitis í flutningi ekki verið könnuð sérstaklega. Markmiðið með rannsókn höfundar var að kanna hvort hægt sé að merkja áhrif af notkun eyrnatappa á hjartsláttaviðbrögð hrossa í flutningum og skoða þannig hversu mikil áhrif hávaðaáreiti í kerru hefur á stress hestsins. Í rannsókninni voru hjartsláttarviðbrögð hjá hestum í flutningi mæld, annarsvegar þegar hestarnir voru fluttir óvarðir í kerru, en hinsvegar þegar settir voru eyrnartappar í eyru hestanna til að dempa hávaðaáreiti. Þessar mælingar voru svo bornar saman. Í rannsóknina voru notaðir átta skólahestar frá Háskólanum að Hólum og voru þeir fluttir í hestakerru 25,4 km vegalengd, þrjá daga í röð. Polar hjartsláttarmælitæki var notað til að rannsaka breytingar á hjartsláttartíðni, tímabil milli hjartslátta og hjartsláttarbreytileika hjá hestunum meðan á flutningnum stóð. Hjartsláttarbreytileiki var metinn í gegnum fjórar breytur, 3 staðalfráviksbreytur og rót meðalferviks samfellds mismunar hjartsláttarbils. Hávaði í desíbelum (dB) og breytingar á hita- og rakastigi voru mældur í kerrunni auk breytinga á líkamshita og þyngd hestanna. Lagt var mat á svitamyndun og mælt hversu oft og mikið hestarnir skitu í flutningnum. Niðurstöður leiddu í ljós að meðalhjartsláttartíðni, mæld í slögum á mínútu (slm), lækkaði marktækt milli meðferða þannig að hún var lægri í flutningi með eyrnatöppum en án (p<0,05). Tímabil milli hjartslátta mælt í millisekúndum (ms) lengdist marktækt í flutningi með eyrnatöppum miðað við flutning án eyrnatappa (p<0,05). Hjartsláttarbreytileiki mældur í ms lengdist einnig tölulega í flutningi með eyrnatöppum miðað við flutning án eyrnatappa, en ekki var þar um marktækan mun að ræða (p>0,05). Á milli daga fannst marktækur munur á hjartsláttartíðni og hluta hjartsláttarbreytna (p<0,05). Hestarnir léttust (p<0,05) við flutninginn og líkamshiti hækkaði (p<0,05). Hávaði inni í kerrunni mældist að meðaltali 99 dB á meðan á flutningi stóð. Í ljós kom að notkun eyrnatappa hjá hestum í flutningi leiðir til breytinga á hjartsláttartíðni og hjartsláttarbreytileika, sem bendir til þess að hávaði hafi áhrif á streitu hjá hrossum í flutningi. Notkun eyrnatappa til hljóðdempunnar gæti þannig minnkað álag á hesta í flutningum og gert þeim vistina bærilegri.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
BS-verkefni_Franziska Kopf.pdf | 5,56 MB | Opinn | Skoða/Opna |