Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/19967
Í fyrirlestrinum verður leitast við að sýna fram á hvernig hetjusagnaefni sem upphaflega var skráð meðal fornaldarsagna Norðurlanda lifir áfram inn í þjóðkvæðahefð síðari alda. Markmiðið er að varpa ljósi á efniviðinn og hvernig hann breytist með tímanum í samhengi við þekkingu fólks á sagnaarfinum hverju sinni. Þótt erfitt sé að segja nákvæmlega til um þann tíma sem ritun fornaldarsagnanna stóð yfir, er óhætt að gera ráð fyrir að hinar „eiginlegu“ fornaldarsögur hafi verið skrifaðar frá 13. öld og fram til plágunnar miklu, eða svarta dauða, laust eftir aldamótin 1400 og jafnvel eitthvað lengur, auk þess sem sífelld endursköpun átti sér stað lengi fram eftir öldum, ýmist í formi nýrra gerða eða rímna. Með þessum hætti lifðu fornaldarsögurnar með þjóðinni og nutu lengi vel mikilla vinsælda. Vinsældir þeirra má þó ekki einungis ráða af fjölda varðveittra sagna- og rímnahandrita, heldur einnig af því að um einstakar söguhetjur var ort á síðari öldum, a.m.k. langt fram á 19. öld. Í sumum tilvikum er um að ræða kvæði sem beinlínis voru ort um tilteknar hetjur, eins og t.d. Gunnar Gjúkason eða Goðmund á Glæsivöllum, en í öðrum tilvikum hafa söguhetjurnar og atburðir sagnanna ratað inn í kveðskap, sem að grunni til fjallar um annars konar efni. Í fyrirlestrinum verður litið til þjóðkvæða sérstaklega, og gerð verður grein fyrir framhaldslífi hetjanna í sagnadönsum, sagnakvæðum, vikivakakvæðum, þulum og fleiri tegundum þjóðkvæða. Rannsóknin einkennist af heimildaleit, samanburði og textarýni. Hún kemur til með að varpa nýju ljósi á íslensk þjóðkvæði og aldur þess efnis sem þau hafa að geyma.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
Gunnar og Göngu-Hrólfur_Félags- og mannvísindadeild.pdf | 581.85 kB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |