Please use this identifier to cite or link to this item: http://hdl.handle.net/1946/20031
Kynjafræði er tiltölulega ung fræðigrein. Á undanförnum árum hefur kynjafræði sem viðfangsefni í framhaldsskólum landsins farið ört vaxandi og er hún nú kennd við um helming allra almennra framhaldsskóla á Íslandi. Í erindinu verður farið yfir helstu áhrif sem kennslan hefur í för með sér en niðurstöðurnar byggjast á eigindlegri rannsókn á upplifun framhaldsskólakennara af kynjafræðikennslu. Rannsóknin var framkvæmd í lok ársins 2013 þar sem gagna var aflað með 11 hálfstöðluðum einstaklingsviðtölum við starfandi framhaldsskólakennara víðsvegar að af landinu sem kenna eða hafa kennt kynjafræði. Við úrvinnslu rannsóknargagnanna var notast við grundaða kenningu. Niðurstöðurnar benda til þess að áhrif kennslunnar eru mikil og margþætt og hafa áhrif bæði á kennara og nemendur og ná jafnvel langt út fyrir skólastofuna. Mörgum kennurum reynist erfitt að sinna kennslunni og virðist hún reyna meira á kennarann en aðrar greinar. Kynjafræðikennslan hefur þó skapað nýjan vettvang innan skólastarfsins sem gefur nemendum kost á að ræða ýmis málefni sem þau hafa annars ekki tækifæri til sem tengjast jafnrétti og samfélagslegri gagnrýni. Í kjölfarið breytast viðhorf nemenda til kynjajafnréttismála sem hafa jákvæðar afleiðingar í för með sér fyrir skólastarfið og samfélagið í heild.
Filename | Size | Visibility | Description | Format | |
---|---|---|---|---|---|
Maður sér bara að þau fá kynjagleraugun_Stjórnmálafræðideild.pdf | 566.69 kB | Open | Heildartexti | View/Open |