is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Menntavísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Menntavísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20103

Titill: 
 • „Nýsköpun er líka bara frjáls hugsun“ : listkennsla og gildi náms á nýrri námsleið:
Námsstig: 
 • Meistara
Útdráttur: 
 • Fjölbreytni menntunar á framhaldsskólastigi er mikilvæg. Í nútímasamfélagi er það grundvallaratriði að nemendur fái nám við hæfi í takt við samfélagsbreytingar og áhuga. Í þessari starfendarannsókn er skoðuð listkennsla og gildi náms á nýrri námsleið, Nýsköpunar- og listabraut í Fjölbrautaskólanum við Ármúla. Á brautinni eru notaðar aðferðir sköpunar og nýsköpunar til að auka fjölbreytni menntunar á framhaldsskólastigi. Innritun inn á brautina hófst haustið 2013 eftir rúmlega tveggja ára þróunarvinnu. Ég var svo gæfusöm að fá að raungera eigin gildi við mótun brautarinnar en sú vinna var í takt við samfélagsbreytingar, áherslur í nýrri námskrá, umræðu um brottfall og þörf á fjölbreyttum námsleiðum. Hugmyndafræðin og leiðarljósin sem ég byggði vinnuna á er byggð á starfskenningu og reynslu í hartnær 30 ár og brennandi áhuga á listkennslu, listsköpun, námskrárgerð og margvíslegri þróunarvinnu sem snýr að listkennslu og listþroska.
  Í rannsókninni er varpað ljósi á þá þætti er hafa mótað gildi mín, starfskenningu og þá hugmyndafræði sem knýja mig áfram við uppbyggingu listkennslu. Ég skoða hverjar forsendur mínar eru í starfi sem listgreinakennari í framhaldsskóla og hvaða aðferðir ég nota í listkennslu.
  Einnig skoða ég hvaða gildi námið hefur fyrir nemendur á nýsköpunar- og listabraut, hvernig þeir upplifa námið, hvort það uppfylli væntingar þeirra, af hverju þeir völdu námsbrautina og hvert þeir stefna.
  Niðurstöður rannsóknarinnar benda til þess að brautin komi til móts við þarfir nemenda og mikilvægi þróunarstarfsins liggur í því að nemendur séu virkir þátttakendur í breytingaferlinu, skapi náminu eigin merkingu og bregðist á persónulegan hátt við því sem þeir læra. Námið er í samræmi við samfélagsþróun og hugmyndafræði nýrrar aðalnámskrár og nemendur skilja gildi þess að tengja námið við atvinnulífið. Starfskenning byggir á listkennslu með sjálfsskoðun, gildi ímyndunaraflsins og tengingu hugmyndafræði kennslunnar við heimspekilegt gildismat. Markmiðið er að nemendur verði meðvitaðir um stöðu sína í samfélaginu og taki þátt í menntandi og upplýstri samræðu um það sem er að gerast, með skýra sýn á sjálfa sig sem þátttakendur með hversdagslegum athöfnum sínum.

Samþykkt: 
 • 25.11.2014
URI: 
 • http://hdl.handle.net/1946/20103


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Gréta Mjöll Bjarnadóttir.pdf1.72 MBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna