Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/2018
Viðfangsefni rannsóknarinnar er að leita svara við því hvert væri hagnýtt gildi þess að taka upp stjórnunarhætti í anda uppeldis til ábyrgðar að mati skólastjórnenda í grunnskólum. Leitast er við að svara á hvaða hátt þessar stjórnunaraðferðir, eins og þær birtast í fræðunum og í framkvæmd, nýtast skólastjórnendum í daglegu starfi og hvaða áhrif áherslur hugmynda um uppeldi til ábyrgðar hafi á stjórnunarhætti þeirra. Áhersla er á að skoða á hvaða hátt stjórnunarhættir í anda uppeldis til ábyrgðar hafa áhrif á skólabrag, samskipti og úrvinnslu agamála. Þá er leitað svara við því hvernig gengið hefur að innleiða starfshætti uppeldis til ábyrgðar í skólunum.
Tilviksrannsókn var gerð í fjórum grunnskólum, tveimur í Bresku Kólumbíu í Kanada og í tveimur á höfuðborgarsvæðinu hér á landi. Gagna var aflað með viðtölum, vettvangsathugunum og skjalaskoðun. Viðtöl voru tekin við skólastjórnendur, kennara, nemendur og námsráðgjafa. Viðtölin voru hálf opin og stuðst var við viðtalsramma sem útbúinn var út frá fræðilegum gögnum.
Niðurstöður rannsóknarinnar gefa vísbendingar um að skólastjórnendurnir telji að stjórnunaraðaðferðir í anda uppeldis til ábyrgðar hafi hagnýtt gildi fyrir þá sem stjórnendur og hafi jákvæð áhrif á skólabrag, almenn samskipti, meðferð agamála og kennsluhætti. Skólastjórnendurnir upplifa að hugmyndir og stjórnunaraðaðferðir uppeldis til ábyrgðar efli skilning þeirra á mannlegri hegðun og ýti undir færni í að taka með markvissari og uppbyggilegri hætti á agavandamálum. Skólastjórnendurnir töldu stjórnunaraðferðir uppeldis til ábyrgðar stuðla að skipulagðari stjórnunarháttum og að þeir næðu betri árangri í starfsmanna- og nemendastjórnun. Þeir töldu að þekking á hugmyndum uppeldis til ábyrgðar og færni í að beita tilteknum stjórnunarháttum hefðu haft áhrif á að þeim liði betur í starfi, væru öruggari í öllum samskiptum, að dregið hefði úr streitueinkennum og nefndu nokkrir að aðferðirnar hefðu ýtt undir að þeim fyndist þeir vera á réttri hillu í starfi. Allir skólastjórnendurnir töldu sig hafa lagt áherslu á lýðræðislega stjórnunarhætti í anda stjórnunarhátta uppeldis til ábyrgðar áður en þeir kynntu sér tilteknar hugmyndir og stjórnunaráherslur.
Lykilorð: Stjórnun, uppbyggingarstefnan, agamál, skólabragur, stjórnunarhættir, Diane Gossen, sjálfstjórnarkenning, forystustjónun, William Glasser.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
360-07-Skjal-A-PDF).pdf | 1.54 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |