Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: https://hdl.handle.net/1946/20207
Ritgerðin fjallar um upplýsingahegðun barnshafandi kvenna. Um eigindlega rannsókn var að ræða og voru tekin viðtöl við níu verðandi mæður. Tilgangur rannsóknarinnar var að varpa ljósi á tilgang upplýsingarleitar þeirra, hvar, hvernig og hvers vegna þær afla sér upplýsinga sem tengjast meðgöngunni, ófæddu barni þeirra og þeim sjálfum. Skoðuð voru fyrstu viðbrögð þeirra við þunguninni og líðan þeirra. Samband konunnar við ljósmóður sína var skoðað í tengslum við upplýsingagjöf og hvers konar stuðning konurnar upplifðu. Niðurstöður rannsóknarinnar stuðla vonandi að eflingu upplýsingagjafa og auka þekkingu á upplýsingahegðun barnshafandi kvenna.
Niðurstöður benda til þess að upplýsingaleit hafi verið hluti af mikilvægum undirbúningi fyrir móðurhlutverkið. Konurnar reyndust upplýsinga- og heilsulæsar. Þær vissu hvernær þeim skorti upplýsingar, gátu fundið þær, metið og notað. Þær leituðu upplýsinga til að svala upplýsingaþörf, fá aðstoð við ákvarðanatöku og auka eigin þekkingarforða. Vinsælustu upplýsingalindirnar voru ljósmæður og Internetið. Flestar konurnar tóku þátt í umræðuhópum á Internetinu til að heyra um persónulegu reynslu annarra kvenna. Ljósmæður voru duglegar við upplýsingagjöf en magn og gæði upplýsinga voru misjöfn. Það skorti samræmi á milli upplýsingagjafa ljósmæðra og það þarf að gæta að tímasetningu upplýsingagjafa. Konurnar kvörtuðu undan skorti á upplýsingum um fyrstu skref eftir jákvætt þungunarpróf, brjóstagjöf og umönnun ungabarns.
Skráarnafn | Stærð | Aðgangur | Lýsing | Skráartegund | |
---|---|---|---|---|---|
MA2015_ErnaAG.pdf | 1,32 MB | Opinn | Heildartexti | Skoða/Opna |