is Íslenska en English

Lokaverkefni (Meistara)

Háskóli Íslands > Félagsvísindasvið > Meistaraprófsritgerðir - Félagsvísindasvið >

Vinsamlegast notið þetta auðkenni þegar þið vitnið til verksins eða tengið í það: http://hdl.handle.net/1946/20212

Titill: 
  • Slepping og dreifing erfðabreyttra lífvera og varúðarregla umhverfisréttar
Námsstig: 
  • Meistara
Útdráttur: 
  • Vegna þeirrar óvissu sem ríkir um hugsanleg áhrif erfðabreyttra lífvera virðist gilda almennt samkomulag um að gæta varúðar þegar kemur að sleppingu og dreifingu þeirra og í þeim efnum er varúðarregla, sem er ein meginreglna umhverfisréttar, sérstaklega mikilvæg. Varúðarreglan á sér í lagi við þegar vísindaleg óvissa ríkir um það hvort tilteknar aðgerðir hafi neikvæð eða óafturkræf áhrif á umhverfi og heilsufar manna og annarra lífvera. Lög nr. 18/1996 um erfðabreyttar lífverur byggjast á varúðarreglu og samkvæmt 1. mgr. 16. gr. þeirra er óheimilt að sleppa eða dreifa erfðabreyttum lífverum nema að fengnu leyfi Umhverfisstofnunar. Á grundvelli laganna er stofnuninni skylt að leita umsagnar Náttúrufræðistofnunar Íslands og ráðgjafanefndar um erfðabreyttar lífverur áður en hún tekur ákvörðun um leyfisveitingu. Í framangreindu ljósi var markmið ritgerðarinnar tvíþætt, þ.e. í fyrsta lagi að fjalla um og greina varúðarregluna og reglur sem varða erfðabreyttar lífverur og í öðru lagi að greina umsagnir framangreindra aðila um umsóknir ORF Líftækni hf. um sleppingu erfðabreyttra lífvera og ákvarðanir Umhverfisstofnunar um leyfisveitingu. Að lokinni umfjöllun og greiningu á varúðarreglu í 2. kafla voru sett fram viðmið fyrir greiningu á varúðarreglu í löggjöf og fyrir mat á stjórnsýsluframkvæmd, sem síðan var beitt í 3. og 4. kafla. Að loknu mati á varúðarreglu í löggjöf, í 3. kafla, kom fram að í löggjöfinni væru til staðar viðmið til mats á áhættu á neikvæðum afleiðingum sleppingar eða dreifingar og markaðssetningar erfðabreyttra lífvera á umhverfi, heilsu manna og annarra lífvera. Enn fremur kom fram að í löggjöfina vanti viðmið til að vega saman ávinning athafna eða athafnaleysis og hættu á verulegum neikvæðum afleiðingum. Í 4. kafla fór fram greining, í ljósi viðmiða sem sett voru fram í lok 2. kafla, á því hvort Náttúrufræðistofnun Íslands, ráðgjafanefnd um erfðabreyttar lífverur og Umhverfisstofnun hafi beitt varúðarreglu í meðförum sínum á umsóknum ORF Líftækni hf. Var niðurstaðan sú að það hefði að mestu verið gert en þó var sett út á að greinargerð sú sem kveðið var á um að fylgja skyldi áhættumati umsækjanda um sleppingu hefði ekki fylgt áhættumati ORF Líftækni hf. og að Umhverfisstofnun hefði ekki gert athugasemd við þá staðreynd. Einnig kom fram að í löggjöf skorti viðmið til mats á siðferðilegum sjónarmiðum, en það að slepping sé siðferðilega réttlætanleg er meðal skilyrða fyrir leyfisveitingu. Í 5. kafla ritgerðarinnar komu fram tillögur til úrbóta á löggjöf og stjórnsýsluframkvæmd, sér í lagi um viðmið í löggjöf til að vega saman áhættu og ávinning og um mat á siðferðilegum sjónarmiðum.

Samþykkt: 
  • 5.1.2015
URI: 
  • http://hdl.handle.net/1946/20212


Skrár
Skráarnafn Stærð AðgangurLýsingSkráartegund 
Ritgerð 2015.pdf943.82 kBOpinnHeildartextiPDFSkoða/Opna
Yfirlýsing.pdf293.26 kBOpinnYfirlýsingPDFSkoða/Opna